Dauðadóms krafist yfir James Holmes

James Holmes.
James Holmes. HO

Dauðadóms verður krafist yfir James Holmes, sem ákærður er fyrir að hafa myrt 12 og sært 58 í skotárás í kvikmyndahúsi í Aurora í Colarado-ríki í júlí síðastliðnum. Dómari hefur frestað réttarhöldum til næsta árs og segist hann telja að niðurstaða fáist ekki í málinu fyrr en eftir nokkur ár.

Í síðustu viku sögðu lögmenn Holmes hann vera tilbúinn til að lýsa sig sekan gegn því að sleppa við dauðarefsinguna. Með því væri hægt að ljúka málinu undir eins. Saksóknarinn George Brauchler sagðist aftur á móti ætla að krefjast dauðadóms eftir að hafa rætt við aðstandendur fórnarlambanna og spurt þá hvað þeir vildu. Alls hefðu starfsmenn embættisins rætt við 800 manns, eftirlifendur og aðstandendur þeirra sem létust. Brauchler sagði skoðun sína þá að réttlæti næði aðeins fram að ganga yrði Holmes dæmdur til dauða.

Réttarhöld áttu að hefjast í ágúst en dómarinn frestaði þeim til 3. febrúar á næsta ári og sagði sig í kjölfarið frá málinu vegna annríkis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert