Deilt um nornasöng fyrir útför Thatcher

„Ding-Dong! The Witch is Dead“ syngja andstæðingar Margaret Thatcher þessa …
„Ding-Dong! The Witch is Dead“ syngja andstæðingar Margaret Thatcher þessa dagana. AFP

Farið hefur verið fram á það við breska ríkisútvarpið BBC að lagið „Ding-Dong! The Witch is Dead“ úr söngleiknum Galdrakarlinum úr Oz, verði ekki spilað á útfarardegi Margaret Thatcher, en lagið hefur rokið upp vinsældalista BBC eftir dauða hennar.

Andstæðingar Járnfrúarinnar standa að baki herferð á netinu með því markmiði að koma þessu gamla lagi sem sungið er um illu nornina í Oz aftur á efsta sæti vinsældalistans. Og þeim miðar hreint ágætlega áfram, því í gær var lagið í 3. sæti vinsældalistans.

Nokkur dæmi um bönnuð dægurlög

Ding-Dong! The Witch is Dead hljómar nú reglulega á öldum ljósvakans í Bretlandi að beiðni hlustenda og þykir sumum nóg um. Þeirra á meðal er íhaldsmaðurinn John Whittingdale, sem er formaður menningarmála- og fjölmiðlanefndar breska þingsins. Hann fer fram á að lagið verði ekki spilað á útfarardag Thatcher í næstu viku.

„Þessi tilraun til að skekkja vinsældalistana er gerð í pólitískum tilgangi,“ hefur Daily Mail eftir Whittingdale í dag. „Flestum finnst þetta bæði móðgandi og afar tillitslaust og af þeirri ástæðu teldi ég vænlegra að BBC spilaði lagið ekki.“

BBC, sem er rekið fyrir almannafé og er umfangsmesta útvarpsfyrirtæki heims, hefur ekki tjáð sig enn um málið. Fátítt er, a.m.k. nú til dags, að BBC banni spilun laga en meðal fyrri laga sem sett hafa verið á bannlista þar eru hið erótíska „Je T'aime...Moi Non Plus“ árið 1969, God Save the Queen með Sex Pistols árið 1977 og Relax með Frankie Goes to Hollywood árið 1983.

Lagið má sjá hér að neðan, úr kvikmyndinni frá 1949:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert