Jolie lét fjarlægja bæði brjóst sín

Bandaríska leikkonan Angelina Jolie lét fjarlægja bæði brjóst sín til …
Bandaríska leikkonan Angelina Jolie lét fjarlægja bæði brjóst sín til að minnka hættuna á því að fá brjóstakrabbamein. AFP

Bandaríska leikkonan Angelina Jolie sagði frá því í grein í dagblaðinu The New York Times í morgun að hún hefði látið fjarlægja bæði brjóst sín til að minnka hættuna á því að fá brjóstakrabbamein.

Móðir Jolie lést af völdum brjóstakrabba 56 ára að aldri og í grein sinni segir Jolie að hún sé arfberi gensins BRCA1, sem valdi því að líkurnar á því að hún fái sjúkdóminn séu 87%, en eftir brjóstnámið eru líkurnar 5%. Genið veldur einnig því að 50% líkur eru á því að Jolie fái krabbamein í eggjastokka.

„Þegar ég vissi að þetta var minn veruleiki, þá ákvað ég að taka málin í eigin hendur og minnka áhættuna eins mikið og mér var unnt. Ég ákvað að fara í tvöfalt brjóstnám,“ skrifar Jolie. „Ég byrjaði á brjóstunum, þar sem hættan á því að ég fái brjóstakrabbamein er meiri en hættan á krabbameini í eggjastokkum og sú aðgerð er einnig flóknari.“

Jolie er 37 ára og er gift leikaranum Brad Pitt. Þau hafa eignast þrjú börn saman og hafa einnig ættleitt þrjú. „Núna get ég sagt börnunum mínum að þau þurfi ekki að óttast að ég deyi úr brjóstakrabbameini,“ skrifar Jolie. Hún segir eiginmann sinn hafa veitt sér mikinn stuðning. „Persónulega, þá finnst mér ég ekki vera minni kona eftir á. Ég finn fyrir auknum krafti vegna þess að ég tók stóra ákvörðun.“

Í greininni lýsir hún aðgerðinni sem fer fram í tveimur þrepum. Í því fyrra, getur tekið allt að átta klukkustundir, er brjóstvefurinn fjarlægður og bráðabirgðafyllingar settar í staðinn. „Maður vaknar upp með vökvaslöngur og þanin brjóst. Þetta er eins og atriði úr vísindakvikmynd. En nokkrum dögum eftir aðgerð er hægt að lifa venjubundnu lífi.“

Hún segir að nokkur kostnaður fylgi því að láta leita að geninu, það kosti meira en 3.000 Bandaríkjadollara, jafnvirði tæpra 362.000 íslenskra króna, og það sé ekki á færi allra kvenna að greiða slíkan kostnað. Hún segist vonast til þess að þær konur sem séu í áhættuhópi fái tækifæri til að fara í skoðun. „Það eru margar ögranir í lífinu. Þær sem ættu ekki vekja með okkur ugg eru þær sem við getum ráðið við,“ segir Angelina Jolie.

Hjónin Angelina Jolie og Brad Pitt.
Hjónin Angelina Jolie og Brad Pitt. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert