Sátu fastir í brennandi fjallakláf

251 ferðamaður sat fastur í fjallakláf á Mont Blanc.
251 ferðamaður sat fastur í fjallakláf á Mont Blanc. AFP

251 ferðamanni var bjargað úr brennandi fjallakláf sem hafði bilað í 2310 metra hæð þegar verið var að ferja fólkið á Mont Blanc fjallinu í Frakklandi í gær.  

Björgunarmenn náðu fljótlega að slökkva eldinn en bilunin kom upp 10:40 að morgni dags. Viðgerðarmönnum tókst ekki að gera við bilunina eins fljótt og vonast var til. Síðdegis var því ákveðið að ferja fólk úr kláfnum í þyrlu.

Tvær þyrlur voru í um tvær klukkustundir að ferja fólk úr kláfnum. Þegar búið var að fara 45 ferðir og enn átti eftir að bjarga um 80 ferðamönnum tókst að gera við bilunina og þeir sem eftir voru komust niður af fjallinu með hefðbundnum hætti.   

Vélarbilanir eru afar sjaldgæfar í fjallakláfum en umræddur kláfur Aiguille du Midi ferðast 3842 metra og klýfur um 2,700 metra á 20 mínútum. Hann rís hæst allra kláfa í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert