Heimsins stærsta vatnsaflsvirkjun í Kongó

Bátur siglir yfir Kongó ána milli Kinshasa og Brazzaville.
Bátur siglir yfir Kongó ána milli Kinshasa og Brazzaville. AFP

Í október 2015 stendur til að hefja byggingu stærstu vatnsaflsvirkjunar heims í Lýðveldinu Kongó. Virkjunin, sem bera mun nafnið Grand Inga eftir samnefndum fossum, mun framleiða um 40.000 megavött og er stefnt að því að hún muni framleiða rafmagn fyrir hálfa heimsálfuna.

Skrifað var undir samkomulag þess efnis í París í dag og kemur hann í kjölfar samnings milli Lýðveldisins Kongó og Suður-Afríku sem skrifað var undir 7. maí og kveður á um samvinnu í orkugeiranum og fyrirætlun s-afrískra stjórnvalda um kaup á rafmagni frá virkjuninni.

Núverandi stærsta vatnsaflsvirkjun heims er Þriggja gljúfra stíflan í Kína, sem framleiðir um 22.500 MW.

Grand Inga virkjunin verður reist í Kongó ánni og að verkinu kemur fjöldi alþjóðlegra lánastofnana. Alþjóðabankinn áætlar að með henni verði innan við helmingur virkjunarkosta Lýðveldisins Kongó nýttur, því alls væri hægt að virkja fyrir allt að 100.000 MW í landinu.

Í hámarksafköstun ætti virkjunin þegar fram í sækir að geta framleitt rafmagn fyrir allt að 500 milljón heimili í Afríku, að mati Alþjóðabankans. Í fyrsta áfanga verða þó aðeins framleidd 4.800 MW.

Þrír aðilar bítast nú um að hreppa hnossið og fá að byggja stífluna og risastór stöðvarhús við Inga fossana í Kongó ánni. Það eru í fyrsta lagi kínversku fyrirtækin Sinohydro og Three Gorges Corporation í sameinngu, í öðru lagi spænsku fyrirtækin ACS, Eurofinsa og AEE og suður-kóresku fyrirtækin Daewoo og Posco í samvinnu við SNC Lavalin í Kanada.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert