Gæti leitt til samkynhneigðrar drottningar

Mótmælendur gegn hjónaböndum samkynhneigðra í Bretlandi í dag.
Mótmælendur gegn hjónaböndum samkynhneigðra í Bretlandi í dag. ADRIAN DENNIS

Ummæli Normans Tebbit, sem situr í lávarðadeild breska þingsins fyrir Íhaldsflokkinn, hafa vakið blendin viðbrögð. Tebbit sagði að lögleiðing hjónabanda samkynhneigðra gæti leitt til þess að lesbísk drottning eignaðist erfingja með aðstoð tæknifrjóvgunar.

Tebbit sagði einnig í hálfkæringi að lagabreytingin sem nú stendur fyrir dyrum gæti leitt til þess að hann giftist syni sínum til þess að forðast erfðaskatt.  Harðar deilur standa nú innan breska Íhaldsflokksins um frumvarp til laga sem myndi gera samkynhneigðu fólki kleift að gifta sig. 

„Ég spurði einn ráðherra sem ég þekki: Hafið þið hugsað málið til enda? Því það er líka verið að breyta lögunum um erfðir ríkisarfans,“ sagði Tebbit í viðtali við Big Issue, tímarit sem dreift er af heimilislausu fólki. Spurning væri hvort barn lesbískrar drottningar sem hefði komið undir vegna tæknifrjóvgunar væri réttur ríkisarfi að lögum.

„Það myndi létta á áhyggjum mínum yfir erfðaskatti, því kannski myndi mér verða leyft að giftast syni mínum. Hvers vegna ekki? Hvers vegna ætti móðir ekki að geta gifst dóttur sinni? Hvers vegna mættu tvær rosknar systur sem búa saman ekki giftast hvor annarri?“

Ummæli Tebbits, sem var ráðherra í ríkisstjórn Margrétar Thatcher á sínum tíma, hafa farið víða á samskiptasíðunni Twitter. Er óhætt að segja að þau hafi ekki vakið mikla lukku þar. Þykja ummælin jafnframt benda til þess að lagafrumvarpið muni ekki eiga greiða leið í gegnum lávarðadeildina fari svo að neðri deild þingsins samþykki það. 

Meirihluti Breta styður að hjónabönd samkynhneigðra verði leyfð en gagnrýnendur frumvarpsins hafa sagt að hjónaband geti aðeins verið á milli karls og konu. Staðfest sambúð fyrir samkynhneigða var lögleidd í Bretlandi 2005. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert