Hjartaþjófurinn viðurkennir lygar

Karima El-Mahroug í réttarsalnum í dag.
Karima El-Mahroug í réttarsalnum í dag. AFP

Dansmærin Karima El-Mahroug, eða rúbínrauði hjartaþjófurinn, sem Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, á að hafa greitt fyrir kynmök þegar hún var aðeins sautján ára gömul, kom fyrir dóm í dag. Þar viðurkenndi hún að hafa logið að saksóknara varðandi veislur sem Berlusconi hélt á setri sínu.

„Ég biðst afsökunar á að hafa sagt tóma þvælu þegar ég ræddi við saksóknara,“ sagði Karima El-Mahroug, við réttarhöld yfir þremur félögum Berlusconi í dag. Félagar Berlusconi eru ákærðir fyrir vændissölu.

„Meirihluti þess sem ég sagði var lygi,“ sagði hún við réttarhöldin í dag.

Berlusconi er sakaður um að hafa greitt henni fyrir kynmök. Hann hefur einnig verið ákærður fyrir að hafa misnotað opinber völd sín með því að beita sér fyrir því að lögreglan leysti El-Mahroug, úr haldi eftir að hún var handtekin fyrir þjófnað.

Saksóknari í málinu, Ilda Boccassini, fór fram á að Berlusconi yrði dæmdur í sex ára fangelsi. Hún krefst þess einnig Berlusconi verði bannað að gegna opinberu starfi það sem eftir lifir ævinnar, fyrir að misnota vald sitt og greiða fyrir þjónustu vændiskonu undir lögaldri. Boccassini fékk í vikunni sendar tvær byssukúlur í pósti en henni hefur ítrekað verið hótað að undanförnu. 

El-Mahroug, sem er 21 árs í dag, hélt því fram á sínum tíma að hún hafi fengið greiddar 187 þúsund evrur,  30 milljónir króna, fyrir að mæta í veislur forsætisráðherrans. Nú segist hún hafa skáldað þetta. Eins dró hún til baka ummæli um að ungar stúlkur hafi dansað nektardans fyrir Berlusconi í boðunum en fleiri ungar stúlkur hafa lýst kynsvalli sem á að hafa farið fram í veislum forsætisráðherrans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert