Niðurskurði mótmælt í Frankfurt

Á annað þúsund manns tóku þátt í mótmælum fyrir utan höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópu í Frankfurt í morgun. Ástæða mótmælanna er niðurskurður í mörgum ríkjum á evru-svæðinu.

Mótmælin voru skipulögð af Blockupy hreyfingunni sem berst gegn frjálshyggju. Lögreglan telur að 1.200 til 1.500 manns hafi tekið þátt í mótmælunum en Blockupy segir að þátttakendurnir hafi verið um þrjú þúsund talsins.

Vegtálmar voru settir upp í kringum höfuðstöðvar bankans, Eurotower, í miðborg Frankfurt til þess að koma í veg fyrir að mótmælendur kæmust að byggingunni.

Nokkur hundruð lögreglumenn tóku þátt í að gæta bankans í morgun. Var piparúða beitt mótmælendur sem reyndu að klifra yfir vegatálmana, að sögn lögreglu.

Frekari mótmæli eru skipulögð af Blockupy bæði fyrir framan Seðlabanka Evrópu og einnig Deutsche Bank, stærsta banka Þýskalands sem einnig er með höfuðstöðvar í Frankfurt.

Á morgun, á 15 ára afmæli Seðlabanka Evrópu, er búið að skipuleggja mótmæli í miðborg Frankfurt og er gert ráð fyrir að um 20 þúsund manns muni taka þátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert