„Nú er ég loksins frjáls“

„Ég er virkilega, virkilega glöð yfir að hafa verið náðuð,“ sagði Marte Dalelv þegar NRK náði tali af henni í dag, eftir að ljóst var að hún fær að snúa heim frá Dúbaí. Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs segir að konur eigi ekki að þurfa að óttast afleiðingar þess að kæra nauðgun.

Hin 24 ára gamla Dalelv var boðuð á fund ríkissaksóknara í Dúbaí í morgun og óttaðist það versta, en í síðustu viku var hún dæmd í 16 mánaða fangelsi fyrir kynlíf utan hjónabands, eftir að hún kærði nauðgun.

Hún fékk hins vegar náðun og var afhent vegabréf sitt aftur eftir að hafa verið í farbanni síðan í mars. „Ég veit ekki hvenær ég get farið heim en það verður eins fljótt og hægt er. Nú er ég frjáls, loksins,“ sagði hún í viðtali við NRK. 

„Ég hef talað við foreldra mína og þau eru virkilega hamingjusöm,“ sagði hún jafnframt og þakkaði emírnum af Dúbaí fyrir náðunina. Sendiherra Noregs í Dúbaí segir að enn vanti formlega staðfestingu á því að Dalelv megi yfirgefa landið.

Norsk stjórnvöld fordæmdu dóminn yfir Dalelv og beittur sér fyrir því að honum yrði hnekkt. Jens Stoltenberg forsætisráðherra sagðist á Twitter í dag fagna því að Dalelv væri frjáls kona á nýjan leik.

„Við höfum frá upphafi litið svo á að þessi dómur væri óásættanlegur,“ sagði Stoltenberg ennfremur í viðtali við TV2.

„Hann stríðir gegn grundvallarmannréttindum og konur eiga ekki að þurfa að vera hræddar við að kæra nauðgun. Það er óásættanlegt.“

Náðuð af emírnum í Dúbaí.

Marte Dalelv brosti út að eyrum í Dúbaí í dag …
Marte Dalelv brosti út að eyrum í Dúbaí í dag þegar ljóst varð að hún fær að fara heim. AFP
Marte Dalelv var fylgt eftir af blaðamönnum í Dúbaí í …
Marte Dalelv var fylgt eftir af blaðamönnum í Dúbaí í morgun. AFP
Marte Dalelv brosti út að eyrum í Dúbaí í dag …
Marte Dalelv brosti út að eyrum í Dúbaí í dag þegar ljóst varð að hún fær að fara heim. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert