„Versti raðmorðingi Norðurlanda“ sýknaður

Thomas Quick / Sture Bergwall
Thomas Quick / Sture Bergwall AFP

Svíinn Sture Bergwall, sem talinn var versti raðmorðingi Norðurlandanna, hefur verið sýknaður af öllum átta morðunum sem hann var dæmdur fyrir.

Bergwall, sem er 63 ára, hét áður Thomas Quick og játaði á sig átta morð á árunum 1976 til 1988. Hann var dæmdur til lífstíðarvistar á réttargeðdeild árið 2000 fyrir morðin. Dómarnir byggðust á játningum hans en hann dró þær til baka og í apríl í fyrra var ákveðið að taka mál hans upp á nýjan leik. Frá þeim tíma hefur hann verið sýknaður af morðunum átta.

Bergwall játaði á sínum tíma að hafa framið morðin átta auk rúmlega tuttugu annarra morða í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Í desember 2008 dró hann játningarnar til baka, kvaðst hafa sóst eftir athygli og verið undir áhrifum lyfja þegar hann játaði morðin á sig. Miklar efasemdir hafa verið um sekt mannsins í mörg ár. Engar tæknilegar sannanir eða vitnisburður studdu játningarnar.

Síðasta málið var tekið fyrir í dag og sagði saksóknari að ekki væru nægar sannanir fyrir því að Bergwall hefði myrt fimmtán ára gamlan pilt í Svíþjóð á vetrarkvöldi árið 1976.

Bergwall fagnaði niðurstöðunni á bloggvef sínum í dag og krefst þess að rannsóknarnefnd verði komið á laggirnar sem fari yfir það hvað fór úrskeiðis.

Frétt DN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert