Obama: Getum ekki setið aðgerðalaus

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að ríki heims geti ekki notað stríðsþreytu sem afsökun fyrir því að þau geti ekki sinnt skyldu sinni með því að bregðast við mannskæðri efnavopnaárás í Sýrlandi.

Forsetinn áréttaði að hann væri ekki búinn að taka lokaákvörðun varðandi Sýrland, en rætt hefur verið um að gera árás til að refsa sýrlenskum stjórnvöldum. Obama hefur nú hins vegar gefið sterklega í skyn að Bandaríkin muni bregðast við árásinni. 

Bandarísk stjórnvöld birtu í dag skýrslu, sem unnin var af bandarísku leyniþjónustunni, þar sem fram kemur að sýrlensk stjórnvöld beri ábyrgð á því að 1.429 hafi látist í efnavopnaárás í úthverfum Damaskus í síðustu viku. Að minnsta kosti 426 börn létu lífið. Bandaríkjastjórn segist treyst þeim upplýsingum sem fram komi í skýrslunni. 

„Árás af þessum toga ögrar heimsbyggðinni,“ sagði Obama við blaðamenn í Hvíta húsinu. 

„Við getum ekki sætt okkur við að búa í heimi þar sem gerðar eru hræðilegar gasárásir á konur og börn og saklausa borgara,“ sagði forsetinn ennfremur og bætti við að árásin ógni þjóðaröryggishagsmunum Bandaríkjanna. 

„Ég hef sagt það áður, og ég meina það sem ég sagði, að heimsbyggðinni beri skylda til að tryggja það að við framfylgjum þeim reglum sem gilda varðandi bann við notkun á efnavopnum,“ sagði forsetinn. Hann gagnrýndi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna harðlega fyrir að geta ekki komið sér saman um aðgerðir. 

Obama segir að Bandaríkjastjórn og herinn séu að skoða nokkra valkosti varðandi Sýrland. Hann segir hins vegar að hersveitir verði ekki sendar til landsins og útilokar að aðgerðirnar muni standa yfir í langan tíma.

„Við erum að skoða möguleikann á takmarkaðri aðgerð,“ sagði Obama. 

Barack Obama vill ekki að heimurinn sitji með hendur í …
Barack Obama vill ekki að heimurinn sitji með hendur í skauti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert