Látin drekkja barni sínu

Rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur leitt í ljós að pólitískir fangar í Norður-Kóreu þurfa að þola „ólýsanlega grimmd“. Í fangabúðunum er börnum drekkt og ættingjar eru drepnir fyrir augum barnanna. Þá eru fangarnir látnir borða meindýr.

Michael Kirby, sem gerði rannsóknina í umboði Sameinuðu þjóðanna, tók m.a. viðtöl við fanga sem höfðu strokið úr fangabúðunum í höfuðborginni Pyongyang. Hann segir ljóst að mannréttindi séu brotin á föngunum á mörgum sviðum.

Kirby segir að fangarnir hafi margir verið sveltir og hafi verið refsað með ýmsum hætti fyrir meintar syndir feðra sinna.

Kirby var dómari við hæstarétt Ástralíu 1996-2009. Hann segir að lýsingar fanganna í Norður-Kóreu minni um margt á þann hrylling sem átti sér stað í síðari heimsstyrjöldinni, m.a. af hendi nasista.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu neituðu að hleypa Kirby og aðstoðarmönnum hans inn í landið. Hann þurfti því m.a. að styðjast við gervitunglamyndir af fangabúðunum og vitnisburð strokufanga við rannsókn sína.

Einn strokufanginn lýsti því að hann hefði dvalið í fangabúðunum frá fæðingu. Fæðan sem honum var boðið upp á samanstóð af skordýrum, eðlum og grasi. Hann var látinn horfa á aftöku móður sinnar og bróður. Annar lýsti því að hafa þurft að horfa upp á konu í búðunum drekkja sínu eigin barni. Sá þriðji segist hafa þurft að brenna lík fanga sem höfðu soltið í hel og dreifa ösku þeirra um grænmetisgarða. 

Kirby segir að nú sé það alþjóðasamfélagsins að taka í taumana og bregðast við.

Talið er að á milli 100-200 þúsund pólitískir fangar séu í haldi í Norður-Kóreu. Fólk hefur m.a. verið fangelsað fyrir að horfa á útlenskar sápuóperur í sjónvarpinu eða fyrir trú sína.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu neita ásökununum og segja skýrslu Kirbys tilbúning.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert