Þjáðist af fæðingarþunglyndi

Rannsóknarmenn hafa í dag reynt að átta sig á því af hverju hin 34 ára gamla móðir frá Connecticut ók á ofsahraða á undan lögreglu í gegnum Washington borg í gær. Konan ók utan í vegatálma við Hvíta húsið og hélt eftir það niður Pennsylvaníu breiðgötu í átt að þinghúsinu.

Konan fór ekki að beiðni lögreglu um að stöðva bílinn og lést hún eftir skot frá lögreglu. Fram kemur í bandarískum fjölmiðlum að hún hafi verið skotin 17 sinnum.

Eins árs gamalt stúlkubarn konunnar var í bílnum og er það óslasað. Konan hét Miriam Carey og starfaði sem tannfræðingur. Hún var búsett í Stamford í Connecticut ríki ásamt dóttur sinni, sem er nú á spítala í Washington.

Engin vopn eða saga um ofbeldi

Um 100 lögreglumenn, þar á meðal sérstakt teymi sprengjusérfræðinga, gerðu leit á heimili konunnar í dag og fundu vöggu, barnaleikföng og pela, en engin vopn. Tölva var fjarlægð af heimilinu til frekari rannsóknar.

Móðir konunnar segir að hún eigi sér enga sögu um ofbeldi. Hún hafi ekki hugmynd af hverju dóttir hennar var stödd í Washington borg. Washington Post hefur eftir nágranna Carey að hún hafi verið mjög viðkunnanleg, vel máli farin og augljóslega menntuð.

Móðir hennar sagði í viðtali við ABC News að Carey hafi þjáðst af fæðingarþunglyndi eftir fæðingu barnsins í ágúst á síðasta ári. Hún veiktist nokkrum mánuðum eftir fæðinguna, var þunglynd og þurfti að dvelja á spítala.

Washington Post hefur eftir lögmanni fjölskyldunnar, Eric Sanders, að þau séu að melta tíðindin og skilja hvað gerðist.

Vænisýki gagnvart Bandaríkjaforseta?

NBC News hefur eftir nafnlausum heimildum að lögreglan rannsaki vísbendingar um að Carey hafi staðið í þeirri trú að hún væri ofsótt af Barack Obama, forseta Bandaríkjanna.

Þeir sem til hennar þekkja hafa þó margir sagt í samtali við fjölmiðla að Carey hafi aldrei tjáð neinar pólitískar skoðanir og að utan fæðingarþunglyndisins hafi ekki verið vitað til þess að hún ætti við geðrænan vanda að stríða. Þá hafi hún ekki verið gjörn á að skipta skapi.

Konan er látin

Skotið vegna ofsaaksturs konu með barn

Hleypt af byssu við þinghúsið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert