Líkti dómsmálaráðherra við apa

Christiane Taubira dómsmálaráðherra Frakklands.
Christiane Taubira dómsmálaráðherra Frakklands. AFP

Einum frambjóðenda Þjóðfylkingarinnar, hægriflokks Marine Le Pen í, hefur verið sparkað eftir að hún líkti dómsmálaráðherra Frakklands við apa. Ráðherrann er dökkur á hörund. Þjóðfylkingin reynir nú að draga úr ímynd sinni sem þjóðernisflokkur til að höfða til breiðari hóps kjósenda.

Anna-Sophie Leclere var frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar í sveitarfélaginu Rethel í Ardennes héraði. Hún gerði allt vitlaust þegar bar dómsmálaráðherra landsins Christiane Taubira saman við apa í sjónvarpsviðtali.

„Á sjálf svarta vini“

Ummælin féllu í þættinum Envoye Special þar sem hún sagðist frekar vilja sjá Taubira „sveifla sér í trjágreinum heldur en sitjandi í ríkisstjórn“. Lecere sagði að dómsmáláðherrann væri „villt“ en bætti því þó við að hún ætti sjálf svarta vini sem hún kallaði ekkert endilega apa.

Leclere viðurkenndi líka að hafa birt á Facebook síðu sinni samsetta mynd þar sem mátti sjá dómsmálaráðherrann við hlið apaunga. Undir myndinni af apaunganum stóð „18 mánaða gömul“ og undir myndinni af ráðherranum stóð „í dag“. 

Taubira er frá Franska-Gvæjana á norðausturströnd Suður-Ameríku og er dökk á hörund.

Banönum kastað í ítalskan ráðherra

Varaformaður Þjóðfylkingarinnar, Florian Philippot, brást við síðdegis í dag og sagði að það hafi verið mistök að setja Leclere á framboðslista. Sjálf hefur Leclere lýst því yfir að ummæli hennar séu ekki rasísk, þótt þau kunni að hafa komið óheppilega út.

Stutt er síðan fyrsti hörundsdökki ráðherra Ítalíu, Cecile Kyenge sem er af kongóskum uppruna, varð fyrir rasískum árásum þar sem henni var m.a. líkt við órangútan og banönum kastað í hana. Eftir það hétu 17 Evrópuþjóðir að setja aukinn kraft í baráttu gegn kynþáttahatri.

Þjóðfylkingin í Frakklandi er þekkt sem þjóðernissinnaður flokkur en Marine Le Pen hefur markvisst reynt að draga úr þeirri ímynd undanfarið. Aðeins er rúmur mánuður síðan öðrum frambjóðanda flokksins var sparkað af lista, fyrir að birta mynd á Facebook af brennandi Ísraelsfána með orðunum „Þetta er Frakkland,“ en það átti að vera tilvísun í franska múslímasamfélagið, sem er það stærsta í Vestur-Evrópu. 

Marine Le Pen formaður frönsku Þjóðfylkingarinnar.
Marine Le Pen formaður frönsku Þjóðfylkingarinnar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert