Sex létust í sjálfsmorðssprengingu í Volgograd

Sex létust og allt að 30 særðust í sjálfsmorðssprengjuárás á strætisvagn í rússnesku borginni Volgograd í dag.

Yfirvöld telja að íslömsk kona frá Dagestan-héraði sé ábyrg fyrir verknaðinum, en héraðið hefur verið kallað hættulegasta svæði jarðar vegna tíðra ofbeldisverka herskárra múslima.

Rússnesk yfirvöld segja sjö hafa særst í árásinni, en aðrar heimildir segja töluna hærri. Þannig segir AFP fréttastofan að 17 hafi særst, en BBC segir þá yfir 30.

Kenndu gasbúnaði vagnsins um

Árásin átti sér stað laust eftir klukkan 14.00 í dag, að staðartíma. Um 40 manns voru um borð í strætisvagninum, flestir nemar.

Ríkisrekna sjónvarpsstöðin Rossiya-24 taldi í fyrstu að sprenging hefði orðið í gasbúnaði rútunnar. Stuttu síðar sagði Vladimir Markin hjá rússnesku alríkislögreglunni að þrítug kona frá Dagestan, Nadia Akhiyalova að nafni, hafði framið verknaðinn.

„Samkvæmt upplýsingum rannsakenda fór konan um borð í vagninn á biðstöð, og örstuttu síðar sprakk sprengjan. Þetta hefur verið staðfest af farþega sem lifði árásina af,“ hefur fréttastofan Interfax eftir Markin.

U17 landsliðið í Volgograd fyrir fjórum vikum

Rússneska alríkislögreglan flokkar árásina sem hryðjuverk, morð og ólöglega notkun skotvopna. Áhyggjur hafa vaknað í kjölfar árásinnar um að hryðjuverkum fjölgi á næstu mánuðum, vegna vetrarólympíuleikanna í Sochi í febrúar. Sochi, sem tilheyrir norðurhluta Kákasusfjalla líkt og Dagestan, er í um 1.000 km fjarlægð frá Volgograd.

Nafnið Volgograd kann að hljóma kunnuglega fyrir lesendur, en U17 karlalandsliðið í knattspyrnu vann þar frækinn sigur á Rússum fyrir fjórum vikum, í undankeppni fyrir EM.

Hert öryggi

Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur farið fram á aukna öryggisgæslu í norðurhluta Kákasusfjallanna í aðdraganda ólympíuleikanna, en það er að stórum hluta flokkað sem stríðssvæði og lítil virðing borin fyrir lögum og reglum. Borgin Sochi, sem stendur við Svartahaf, er þó álitin örugg fyrir ferðamenn.

Vegfarandi, sem ók skammt á eftir strætisvagninum í dag, náði sprengingunni á myndband sem er fyrir neðan fréttina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert