Fékk bætur fyrir pyntingar Pinochets

Augusto Pinochet í Santiago í september 1973 eftir valdaránið sem …
Augusto Pinochet í Santiago í september 1973 eftir valdaránið sem gerði hann að einræðisherra.

Áttræðum karlmanni frá Síle var í vikunni dæmdar skaðabætur vegna pyntinga sem hann varð fyrir í einræðistíð Augusto Pinochet á 8. áratugnum. Maðurinn, sem nú er breskur ríkisborgari, er fyrsti eftirlifandi Pinochet tímabilsins sem fær dæmdar bætur fyrir mannréttindabrot.

Leopoldo Garcia segir að stjórnvöld í Síle hafi þvingað hann í útlegð árið 1975. Hann var sósíalisti og var handtekinn fyrir pólitískar skoðanir sínar í september 1973, 5 dögum eftir valdarán hersins sem gerði Pinochet að einræðisherra.

Garcia var haldið föngnum í hinum alræmdu Chacabuco fangabúðum í eyðimörkinni Atacama í hálft annað ár og sætti pyntingum sem ollu því að hann lamaðist að í hluta líkamans fyrir lífstíð vegna mænuskemmda. Þá er hann með áberandi ör á enninu eftir að hafa verið barin í höfuðið með riffilskaft.

Framtennurnar voru slegnar úr honum, hann þjáist daglega af verkjum og þarf heyrnatæki. Hann segist hafa sloppið naumlega frá varanlegum heilaskemmdum vegna barsmíðanna sem hann mátti þola.

Þvingaður í útlegð

Árið 1975 var Garcia sleppt úr haldi og honum vísað úr landi. Hann hefur búið í Bretlandi allar götur síðan. Fyrir mannréttindadómstólnum færði hann rök fyrir því að síleska ríkið bæri ábyrgð á því að hann hafi búið í útlegð, og því ætti hann rétt á bótum.

Hann benti m.a. á að hann og fjölskylda hans hafi ekki notið góðs af þeim sérkjörum í heilbrigðis- og menntakerfinu sem fórnarlömb pyntinga njóta, sem enn búa í Síle. Þá dugi lífeyririnn ekki til að halda honum uppi í útlegðinni.

Í niðurstöðu dómsins segir m.a. að síendurtekin töf hafi orðið á því síðustu 16 ár að síleska ríkið taki mál Garcia upp til rannsóknar. Þetta séu brot á réttindum hans. Ríkið var dæmt til að greiða honum bætur og því fyrirskipað að ljúka rannsókn á máli hans.

Örlítið réttlæti eftir 40 ára baráttu

Í samtali við BBC segir Garcia að dómurinn sé honum ekki sérstakt gleðiefni en hann sé þó ánægður því með honum sé sett fordæmi fyrir allan heiminn sem stuðli vonandi að því að annað eins endurtaki sig ekki.

„Þetta hefur tekið 40 ár og fyrst núna hefur örlitlu réttlæti verið náð fram. Bæturnar eru ekki miklar miðað við það sem þeir gerðu mér - ég gæti verið dáinn.“

Áætlað er að um 200.000 íbúar Síle hafi flúið land undan einræði Pinochet. BBC hefur eftir lögspekingum að dómurinn í máli Garcia geti haft mikilvægt fordæmisgildi fyrir þetta fólk. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert