Ólýsanlegur hryllingur

Fjölskyldur á flótta í Mið-Afríkulýðveldinu.
Fjölskyldur á flótta í Mið-Afríkulýðveldinu. AFP

Ólýsanlegur hryllingur er að eiga sér stað í Mið-Afríkulýðveldinu. Forsetanum var steypt af stóli á þessu ári og borgarastyrjöldin sem geisað hefur í fleiri ár magnaðist til muna. Nú fara vopnaðir skæruliðar um bæi og sveitir landsins, ræna, myrða og nauðga. Algjört stjórnleysi ríkir. Íbúarnir treysta engum. Þeir hafa neyðst til að flýja heimili sín - en hvergi er skjól að fá. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti loks í gær hernaðaríhlutun Frakka og annarra Afríkuríkja. Fleiri þúsund hermenn munu nú freista þess að koma á lögum og reglu í landinu. Frakkar heita því að gera það svo fljótt sem auðið er. Í gær féllu yfir hundrað óbreyttir borgarar í höfuðborginni Bangui. Sjónarvottar sögðu líkin hafa legið á víð og dreif.

Um hálf milljón manna hefur þurft að flýja heimili sín vegna átakanna eða um 10% þjóðarinnar. Yfir milljón manna þurfa á mataraðstoð að halda. Sjö af hverjum tíu börnum hafa ekki getað mætt í skóla í um ár. Að mati Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, eru börn í landinu í mikilli hættu. Talið er að á milli 3.500-6.000 þeirra hafi verið þvinguð til að ganga til liðs við vígamenn. 

Fimm valdarán á hálfri öld

Frá því að Mið-Afríkulýðveldið fékk sjálfstæði frá Frökkum árið 1960 hafa fimm valdarán verið gerð í landinu. Snemma á þessu ári færðist aukin harka í borgarastyrjöldina. Hópur uppreisnarmanna, Seleka, réðst til atlögu við her ríkisstjórnar forsetans François Bozizé og veltu honum að lokum af valdastóli. Hann flúði í kjölfarið land. Meðal þeirra sem berjast undir merkjum Seleka eru málaliðar frá Tjad og Súdan. Leiðtogi hópsins, Michel Djotodia, útnefndi sjálfan sig forseta. Liðsmenn hans, sem flestir eru múslímar, hafa síðan þá farið ránshendi um landið og framið hryllileg ofbeldisverk. Meirihluti þjóðarinnar er kristin og verður verst fyrir barðinu á uppreisnarmönnunum.

Ofbeldi án fordæma

Ofbeldið er svo gróft að erfitt er að lýsa því með orðum. Konur og karlar hafa verið bundin saman og kastað fyrir krókódíla. Faðir þurfti að horfa á fjögurra ára son sinn skorinn á háls. Nauðganir eru notaðar skipulega sem vopn í stríðinu og ekki hægt að lýsa því öðruvísi en sem faraldri. Kviður óléttrar konu var skorinn upp og líffæri fjarlægð. Börn voru stungin með sveðjum. Uppreisnarmennirnir hafa rænt börnum og þvinga þau til að bera vopn og berjast sér við hlið. En grimmdarverkin eru ekki eingöngu bundin við liðsmenn Seleka. Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að umfang og eðli ofbeldisins sé án fordæma.

Sameinuðu þjóðirnar óttast þjóðarmorð sambærilegt því sem varð í Rúanda árið 1994 og segja ástandið fara hríðversnandi með degi hverjum. Og þó að nú sé búið að samþykkja hernaðaríhlutun er óttast að það taki vikur og jafnvel mánuði að skipuleggja hana og ná tökum á ástandinu. 

Svartsýnir á árangur

Margir eru svartsýnir á að aðgerðirnar muni yfir höfuð skila tilætluðum árangri og benda á rándýrt friðargæsluverkefni í Austur-Kongó undanfarin ár hafi ekki orðið til þess að koma á friði í landinu. Þar hafa þó undanfarin ár verið yfir 20 þúsund hermenn. Til tíðinda dró þó nú í vetur er M23-uppreisnarhópurinn gafst upp og liðsmenn hans í hundraða tali gáfu sig fram við herinn í nágrannaríkinu Úganda. Þá er einnig bent á að aðgerðir herja Afríkuríkja í Sómalíu hafi á undanförnum misserum náð að brjóta niður uppreisn al-Shabab í landinu.

Vegna staðsetningar Mið-Afríkulýðveldis hefur það reynst hernaðarlega mikilvægt í gegnum árin. Frakkar hafa ítrekað frá sjálfstæði landsins þurft að senda þangað hermenn til að stilla til friðar. Það gerðu þeir m.a. árið 1979 er hrottinn Jean-Bedel Bokassa rændi völdum og fór að kalla sig keisara. Frönsku hermönnunum tókst að koma honum af valdastóli. Í valdatíð Bokassa voru framin ótal ódæðisverk, en hann fyrirskipaði m.a. aftöku margra stjórnmálamanna. Hann lét svo drepa hóp skólabarna og í kjölfarið greip Frakkland í taumana.

Árið 1997 voru þrjár uppreisnir gerðar í Mið-Afríkulýðveldinu. Ári síðar yfirgáfu franskir hermenn loks landið eftir að hafa verið þar allt frá sjálfstæði við þjálfun hermanna. En aðeins fáum árum síðar voru þeir komnir þangað aftur til að berjast við hlið forsetans gegn uppreisnarmönnum í norðausturhluta landsins. Sagan hefur svo endurtekið sig og nú í desember eru 650 franskir hermenn í landinu. Fleiri bíða handan landamæranna, m.a. í Kamerún.

Lík á götu í höfuðborginni.
Lík á götu í höfuðborginni. AFP
AFP
Franskur hermaður undirbýr sig fyrir átök dagsins í Mið-Afríkulýðveldinu.
Franskur hermaður undirbýr sig fyrir átök dagsins í Mið-Afríkulýðveldinu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert