Cameron sagðist vera í liði Nigellu

Nigella Lawson mætir til dómshússins.
Nigella Lawson mætir til dómshússins. AFP

Dómarinn í máli Nigellu Lawson gegn tveimur fyrrverandi aðstoðarkonum hennar gagnrýnir David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, vegna ummæla sem hann lét falla. Cameron sagðist vera í „liði með Nigellu“.

Þetta kemur fram í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.

Kviðdómarar í málinu hafa fengið þau skilaboð frá dómaranum að taka ekki tillit til ummæla forsætisráðherrans. Cameron tjáði sig um Nigellu í viðtali í The Spectator og sagðist þar vera mikill aðdáandi sjónvarpskokksins.

Robin Johnson dómari sagði við kviðdómarana: „Það er synd að fólk í opinberum störfum tjái sig um fólk sem tengist dómsmálum sem eru í gangi.“

Cameron var spurður í viðtalinu hvort hann væri í liði Nigellu (e. Team Nigella) eins og stuðningsmenn hennar kalla sig. Hann svaraði: „Ég er það. Ég er mikill aðdáandi.“

Þá sagði hann: „Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta hana nokkrum sinnum og hún kemur mér ávallt fyrir sjónir sem fyndin og hlý manneskja.“

Dómarinn ítrekaði í dag að kviðdómararnir ættu ekki að láta ummælin hafa áhrif á niðurstöðu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert