Þrýst á Hollande að upplýsa þjóðina

François Hollande, forseti Frakklands og leikkonan Julie Gayet.
François Hollande, forseti Frakklands og leikkonan Julie Gayet.

Mikill þrýstingur er á François Hollande, forseta Frakklands, að gera hreint fyrir sínum dyrum vegna frásagnar tímaritsins Closer um ástarsamband hans og leikkonunnar Julie Gayet. Ekkert hefur heyrst frá sambýliskonu hans, Valérie Trierweiler, varðandi fréttirnar.

Forsetinn mun halda mikilvæga pólitíska ræðu varðandi efnahagsmálin á þriðjudag og ef ekkert hefur skýrst varðandi það hvort frásögn Closer sé sönn eður ei fyrir þann tíma má búast við að pólitískur boðskapur forsetans fari fyrir ofan garð og neðan hjá frönsku þjóðinni. Þykir umfjöllun Closer vera hörmuleg í alla staði fyrir forsetann sem hefur glímt við dalandi vinsældir allt frá kjöri árið 2012.

Orðrómur um ástarsambandið hefur verið í gangi í Frakklandi í marga mánuði. Samkvæmt Closer á Hollande iðulega að fara á vélhjóli sínu í næturheimsóknir til leikkonunnar í París en Hollande er eins og áður sagði í sambúð með Trierweiler. Áður var hann í sambúð með barnsmóður sinni, fyrrverandi forsetaframbjóðanda sósíalista, Ségolène Royal, en hann yfirgaf hana eftir að ástarsamband hans og Trierweiler hófst. Royal og Hollande eiga fjögur börn saman.

Í gær sagði Hollande að fréttin væri árás á einkalíf hans og að hann myndi jafnvel höfða skaðabótamál gegn útgáfunni. En eins og breska ríkisútvarpið og Guardian benda réttilega á í dag, hann neitar ekki ástarsambandinu.

Ástríðan tók völdin af skynseminni

Closer segir í gær að samband þeirra Hollande og Gayet sé ástríðufullt og þau hafi snúið lífi sínu á hvolf og tekið fáránlegar áhættu vegna þess.

Þrátt fyrir að það sé ekkert nýtt af nálinni að franskir forsetar haldi fram hjá eiginkonum sínum þá er þetta afar óheppilegur tími fyrir Hollande sem berst fyrir pólitísku lífi sínu.

Á þriðjudaginn ætlaði hann að kynna áætlun í efnahagsmálum sem vonir standa til um að koma frönsku efnahagslífi til bjargar en það stendur afar höllum fæti. Meðal annars ætlar hann að kynna aðgerðir sem miða að því að fyrirtækjum verði umbunað fyrir að búa til störf með lækkun skatta. Alls voru 3,29 milljónir Frakka án atvinnu í nóvember.

Eltist við leikkonu í stað þess að bjarga þjóðinni

Í leiðara L'Est Republicain í dag segir að í stað þess að ræðan á þriðjudag auki á vinsældir forsetans þá séu allra augu á því hver viðbrögð hans verða við umfjöllun Closer.

Í L'Alsace dagblaðinu í dag segir að ásakanir Closer séu skelfilegar fyrir forsetann. „Franska þjóðin hélt að hann var önnum kafir við skyldur sínar að nýta hverja stund til þess að koma landinu á réttan kjöl. Og á sama tíma og niðurstaðan þar er engin hefur þjóðin komist að því að forseti lýðveldisins hefur lausa stund til þess að eltast við leikkonu.“

Forsetinn á flandri

François Hollande og Valérie Trierweiler
François Hollande og Valérie Trierweiler AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert