Harma norska kærustu sonarins

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Strangtrúaðir ísraelskir þingmenn gagnrýndu Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra, í gær vegna þess að fregnir herma að sonur hans eigi vingott við norska stúlku. Ástæðan er að hún er ekki gyðingur.

Norskir fjölmiðlar hafa sagt frá því að Yair Netanyahu, 23 ára gamall sonur ísraelska forsætisráðherrans, sé að hitta hina 25 ára gömlu Söndru Leikanger sem er norskur námsmaður í Ísrael. Blaðið Dagen segir að Netanyahu hafi sagt Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, í Davos að parið hafi nýlega verið í fríi í Noregi.

Nissim Zeev, þingmaður Shas-flokksins í Ísrael sem er flokkur strangtrúaðra gyðinga, segir að Netanyahu eldri verði að sýna „þjóðlega ábyrgð“ sem forsætisráðherra.

„Þetta er stórt vandamál. Ég er viss um að þetta særir hann,“ segir Zeev. Aðrir strangtrúaðir þingmenn hafa tekið undir gagnrýnina og segja samband sonar forsætisráðherrans vera „óheppilegt“.

Yair er sonur Netanyahus og þriðju eiginkonu hans, Söru. Forsætisráðherrann var sjálfur giftur konu sem ekki var gyðingur frá 1981 til 1984. Hann hefur hafnað því að tjá sig um ástarmál sonar síns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert