O'Donnel fær allar eignir Hoffmans

Mimi O'Donnell í útför Hoffmans, sambýlismanns síns til fimmtán ára.
Mimi O'Donnell í útför Hoffmans, sambýlismanns síns til fimmtán ára. Kena Betancur

Mimi O'Donnel, sambýliskona Philips Seymours Hoffmans til fimmtán ára, fær allar eignir hans í arf, samkvæmt heimildum vefsins TMZ.

Þau kynntust þegar þau unnu að leikverkinu In Arabia We'd All be Kings, sem Hoffman leikstýrði, árið 1999. Þau eignuðust son, Cooper, árið 2003 og tvær dætur, Tallulah, fædd 2006, og Willa, fædd 2008.

TMZ segist hafa undir höndum erfðaskrá Hoffmans, sem var rituð árið 2004. Þar kemur fram að Hoffman vildi að Cooper yrði alinn upp í New York. Ef það yrði ekki hægt óskaði hann þess að Cooper yrði alinn upp í Chicago eða San Francisco. Ef það yrði ekki heldur mögulegt vonaðist Hoffman til þess að hann myndi heimsækja þessar borgir að minnsta kosti tvisvar sinnum á ári.

Hoffman fannst látinn á heimili sínu í byrjun febrúarmánaðar eftir að hafa tekið of stóran skammt af eiturlyfjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert