Mugabe fagnar 90 ára afmæli

Robert Mugabe, forseti Simbabve, fagnar á morgun 90 ára afmæli. Hann hefur verið við völd í 34 ár. Á valdatíma hans hefur margt snúist til verri vegar, ekki síst í efnahagsmálum.

Mugabe fæddist árið 1924 í Suður-Ródesíu. Árið 1964 var honum varpað í fangelsi fyrir „undirróður“. 1975 var hann látinn laus. Mugabe var einn af forustumönnum uppreisnarinnar gegn stjórn hvíta minnihlutans, sem var undir forustu Ians Smiths. 1979 var samið um frið og 1980 sigraði flokkur Mugabes með yfirburðum í kosningum. Hann var forsætisráðherra í landi, sem fékk nafnið Simbabve. Hann sat í sjö ár. Þá varð hann forseti og þar til í byrjun þessa árs hefur eins flokks stjórn verið í landinu.

Eftir því sem vinsældir Mugabes hafa dvínað hefur stjórnarfarið versnað í landinu. Frelsi fjölmiðla var heft og stjórnarandstæðingar beittir ofbeldi. Svokallaðar landbúnaðarumbætur fólust í því að hrekja hvíta bændur af jörðum sínum og fá þær í hendur stuðningsmönnum forsetans, sem ekkert kunnu í landbúnaði. Afleiðingin var uppskerubrestur og hungursneyð. Frelsishetja Simbabve endaði því sem illa þokkaður harðstjóri.

Zanu, flokkur Mugabe, og MDC, flokkur Morgan Tsvangirai, hófu stjórnarsamstarf árið 2009. Samstarf flokkanna batt enda á ofbeldi sem verið hafði í landinu og síðan hefur heldur þokast í rétta átt í efnahagsmálum.

Forsetakosningar fóru fram í Simbabve á síðasta ári. Mugabe bauð sig fram í sjöunda sinn og sigraði. Það er því fátt sem bendir til að Mugabe sé að láta af völdum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert