Viðurlög við samkynhneigð verða hert

Forseti Úganda, Yoweri Museveni, hefur skrifað undir umdeild lög er herða viðurlög við samkynhneigð í landinu. Samkvæmt lögunum er hægt að refsa samkynhneigðum með lífstíðarfangelsisdómi. Þá er íbúum landsins einnig skylt að segja hvar samkynhneigðir halda sig. „Ég er nú opinberlega glæpamaður fyrir að vera lesbía. Nokkuð sem ég hef enga stjórn á,“ skrifar Kasha Jacqueline, talsmaður samkynhneigðra í Úganda, á twittersíðu sína. Hún segir í samtali við mbl.is að það sé átakanlegt að vera nú gerð að glæpamanni og annars flokks þjóðfélagsþegni. „Ákvörðun forsetans er mjög niðurlægjandi og mannskemmandi svo ekki sé meira sagt. En við höfum tvíeflst og ætlum ekki að gefast upp. Þetta er rétt upphafið að langri baráttu fyrir hinsegin fólk í Úganda.“

Mörg ríki hafa fordæmt lagasetninguna og hafa m.a. Bandaríkin sagt að skrifi forsetinn undir, líkt og hann hefur nú gert, verði samband þjóðanna „flóknara“.

„Museveni forseti hefur loksins skrifað undir lög gegn samkynhneigð,“ segir í yfirlýsingu frá forsetaskrifstofunni.

Talsmaður forsetans segir að hann ætli ekki að láta alþjóðlegan þrýsting á sig fá heldur sýna sjálfstæði.

Þegar er ólöglegt að vera samkynhneigður í Úganda. Nýju lögin breyta þó mjög miklu, ekki síst sá kafli þeirra þar sem almenningi er gert skylt að segja til samkynhneigðra. Það gerir það ómögulegt fyrir fólk að vera samkynhneigt opinberlega. Samkynhneigðir eru þegar ofsóttir í Úganda. Staðfesting laganna mun enn auka þær ofsóknir. 

Í frétt BBC segir að „fyrsta brot“ varði allt að 14 ára fangelsi. Gerist fólk ítrekað brotlegt við lögin er hægt að dæma það í allt að lífstíðarfangelsi.

Þá er sú nýbreytni í lögunum að í fyrsta sinn ná þau einnig til lesbía en eldri lög náðu aðeins til samkynhneigðra karla.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, þingmaðurinn David Bahati, hefur haldið því fram í fjölmiðlum að samkynhneigð sé lærð hegðun.

„Samkynhneigð er bara slæm hegðun, hana á ekki að leyfa í okkar samfélagi.“

Margir hafa mótmælt lagasetningunni, m.a. fólk í nágrannalandinu Kenía.
Margir hafa mótmælt lagasetningunni, m.a. fólk í nágrannalandinu Kenía. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka