Rússar virða niðurstöðu atkvæðagreiðslu

Rússneska þingið ætlar að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í Krím síðar í mánuðinum þegar íbúar þar munu greiða atkvæði um að sameinast Rússlandi, að sögn forseta neðri deildar rússneska þingsins.

Þingmenn í Krím samþykktu í gær sameiningu við Rússland og ákváðu að aðskilnaður frá Úkraínu yrði borinn undir þjóðaratkvæði 16. mars næstkomandi.

Úkraínski stjórnarandstöðuleiðtoginn Júlía Tímósjenkó gagnrýndi ákvörðun þingmanna í Krím harkalega og segir óskiljanlegt hvernig sé hægt að halda lýðræðislega þjóðaratkvæðagreiðslu undir byssukjafti. Þjóðaratkvæðagreiðslan brjóti gegn stjórnarskrá Úkraínu og því ekki marktæk.

Sergei Naryshkin segir að þingið muni virða ákvörðun íbúa í Krím í þessari sögulegu kosningu en Krím er hluti Úkraínu í dag. Talið er fullvíst að meirihluti íbúa samþykki sameiningu. „Við styðjum frjálst og lýðræðislegt val íbúa Krímar,“ segir Naryshkin.

Forsætisráðherra Úkraínu, Arseniy Yatsenyuk, sagði niðurstöðu þingsins hins vegar ólögmæta og að úkraínsk stjórnvöld væru ákveðin í því að undirrita samstarfssamning við Evrópusambandið við fyrsta mögulega tækifæri.

Tillagan um sameiningu var samþykkt með 78 atkvæðum af 86 en leiðtogar tatara hafa sagt að þeir muni sniðganga þjóðaratkvæðagreiðsluna. „Þetta er ekki einvörðungu Úkraínu- og Rússlandskreppa, heldur kreppa í Evrópu,“ sagði Yatsenyuk í Brussel en honum var boðið að sitja neyðarfund leiðtoga Evrópusambandsríkjanna sem haldinn var í gær.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, þrýstir á Vladimír Pútín Rússlandsforseta um að ná friðsamlegri lausn á ólgunni í Úkraínu en þeir ræddu lengi saman í síma í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert