Miklar efasemdir um ESB í Svíþjóð

Johannes Jansson/norden.org

Einungis 18% Svía telja að þróun Evrópusambandsins sé á réttri leið á sama tíma og 38% telja þróun sambandsins vera á rangri leið. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem gerð var af fyrirtækinu Ipsos fyrir sænska dagblaðið Dagens Nyheter og birtar eru í dag.

Fram kemur á fréttavef dagblaðsins að tæpur fjórðungur, eða 23%, hafi hins vegar ekki tekið afstöðu til spurningarinnar og 20% telja Evrópusambandið hvorki vera að þróast í rétta átt né ranga. Haft er eftir David Ahlin, rannsóknastjóra hjá Ipsos, að svartsýni sé útbreidd meðal Svía á þróun sambandsins. Efasemdir séu uppi um kosti þess að vera innan þess.

„Niðurstöðurnar sýna að það eru útbreiddar efasemdir á meðal kjósenda og að stórir hópar kjósenda telji að vera Svíþjóðar í Evrópusambandinu hafi neikvæð áhrif á hagsmuni landsins á mörgum sviðum,“ segir hann. Fram kemur í fréttinni að Evrópusambandið sé meðal annars talið hafa neikvæð áhrif á hagsmuni Svía í landbúnaðarmálum og skattamálum.

Þá telji nærri fjórir af hverjum tíu að Evrópusambandið hafi neikvæð áhrif á möguleika sænskra stjórnvalda til að taka ákvarðanir með hagsmuni Svía að leiðarljósi. Kosningar til Evrópuþingsins fara fram í maí næstkomandi. Er búist við að framboð gagnrýnin á sambandið fái aukið fylgi í Svíþjóð líkt og víðar innan þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert