Eystrasaltsríkin uggandi

Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra Þýskalands í Tallin í Eistlandi í morgun.
Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra Þýskalands í Tallin í Eistlandi í morgun. AFP

Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, geta treyst því að öryggi þeirra sé tryggt vegna aðildar þeirra að NATO og Evrópusambandinu. Þetta sagði utanríkisráðherra Þýskalands í dag, í skugga átakanna milli Úkraínu og Rússlands.

Eystrasaltsríkin tilheyrðu áður Sovétríkjunum, rétt eins og Úkraína, og íbúar þeirra eru uggandi yfir tilburðum Rússa til að taka yfir Krímskagann með þeim rökum að vernda þurfi rússneska íbúa svæðisins.

Forseti Litháens, Dalia Grybauskaite, varaði við því í síðustu viku að næstu skotmörk Rússa gætu orðið Pólland, Moldavía og Eystrasaltsríkin. Hún líkti Vladimír Pútín við einræðisherrann Jósef Stalín.

„Þetta snýst um að endurskrifa landamærin,“ sagði Grybauskaite og lýsti Rússlandi sem hættulegu og ófyrirsjáanlegu.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í Tallinn í morgun að yrði engin breyting á framkomu Rússa í vikulok myndu utanríkisráðherrar Evrópusambandsins taka ákvörðun um frekari aðgerðir á fundi í Brussel næsta mánudag.

Utanríkisráðherra Frakka, Laurent Fabius, lét einnig hafa eftir sér í dag að hugsanlega yrði gripið til refsiaðgerða gegn Rússum þegar í þessari viku brygðust þeir ekki við beiðni Vesturlanda um að leysa deiluna í Úkraínu. 

Refsiaðgerðirnar gætu falist í frystingu rússneskra eigna og takmörkunum á ferðafrelsi og útgáfu vegabréfsáritana fyrir Rússa til Evrópusambandsins.

Dalia Grybauskaite forseti Litháen varar við því að Rússar kunni …
Dalia Grybauskaite forseti Litháen varar við því að Rússar kunni að færa sig upp á skaptið. AFP
Vladimir Putin Rússlandsforseti.
Vladimir Putin Rússlandsforseti. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert