Kemur til greina að reka Rússa úr G8

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að G7-ríkin, sem eru sjö stærstu iðnríki heims, verði að ræða það á fundi sínum í næstu viku hvort reka eigi Rússland úr hópi G8-ríkjanna, sem eru átta stærstu efnahagsveldi heims.

Hann segir það vel koma til greina að vísa Rússum á brott ef þeir láta ekki af aðgerðum sínum á Krímskaga. 

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur boðað G7-ríkin á fund á mánudag og þriðjudag í næstu viku í hollensku borginni Haag. Aðeins eitt fundarefni er á dagskrá: Ástandið á Krímskaga eftir þjóðaratkvæðagreiðlsuna seinasta sunnudag.

Mikill meirihluti íbúa á Krímskaga samþykkti þá að segja sig úr lögum við Úkraínu og sameina héraðið Rússlandi. Leiðtogar vestrænna ríkja hafa fordæmt aðgerðir Rússa og segjast ekki ætla að viðurkenna úrslit kosninganna.

Í ræðu á breska þinginu í dag lýsti Cameron yfir miklum áhyggjum af stöðunni á Krím. Vesturlönd þyrftu að bregðast strax við og að reka Rússa úr hópi G8-ríkjanna væri ein leið sem kæmi vel til greina. 

Rússar hafa tilheyrt félagsskap G8-ríkjanna síðan árið 1997.

William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í gær að bresk stjórnvöld hefðu ákveðið að hætta allri tvíhliða hernaðarsamvinnu við Rússland. Hann sagði jafnframt að heræfingum flota Rússlands, Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna hefði verið frestað tímabundið.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. EPA
Íbúar borgarinnar Sevastopol á Krím fögnuðu vel og innilega þegar …
Íbúar borgarinnar Sevastopol á Krím fögnuðu vel og innilega þegar úrslit kosninganna um framtíð héraðsins urðu ljós. VIKTOR DRACHEV
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert