Saka Frakka um hlutdeild í þjóðarmorðinu

Louise Mushikiwabo utanríkisráðherra Rúanda.
Louise Mushikiwabo utanríkisráðherra Rúanda. AFP

Stjórnvöld í Rúanda segja að Frakkar verði að horfast í augu við „erfiðan sannleika“ um eigin hlutdeild í þjóðarmorðinu sem þar var framið 1994. Frönsk stjórnvöld hafa á móti afboðað sig í minningarathöfn sem fram fer á morgun í tilefni af því að 20 ár eru liðin frá blóðbaðinu.

Fyrir borgarastyrjöldina 1994 voru Frakkar bandamenn ríkisstjórnarinnar, þar sem Hutu-menn fóru með völd. Fjöldamorðin hófust í kjölfar þess að flugvél forseta landsins, sem var Hutu-maður, var skotin niður. Hátt í milljón Tutsi-menn voru drepnir áður en yfir lauk.

„Ef þessar tvær þjóðir eiga að geta unnið saman þá verðum við að horfast í augu við sannleikann, og sannleikurinn er erfiður. Þegar sannleikurinn varðar náin tengsl við einhvern sem átti aðild að þjóðarmorði þá er skiljanlega mjög erfitt að sættast við það,“ segir utanríkisráðherra Rúanda, Louise Mushikiwabo, á opnum umræðufundi um þjóðarmorðin í dag.

Mushikiwabo sagði að það væri óhugsandi að horfa fram í veginn í sambandi ríkjanna ef skilyrðið fyrir því væri að Rúandamenn gleymi sögunni til þess að geta látið sér lynda við Frakka, á meðan þeir haldi áfram að afneita sannleikanum.

Í síðustu viku lýsti forseti Rúanda, Paul Kagame, því yfir í viðtali við tímaritið Jeune Afrique, að Frakkar og Belgar hefðu átt beinan þátt í því að mynda pólitískan farveg fyrir þjóðarmorð í landinu 1994. Þá hefðu franskir hermenn sem sendir voru til Rúanda við upphaf blóðsúthellinganna verið samsekir morðingjunum.

Belgar, sem áður voru nýlenduherrar Rúanda, hafa beði Rúandamenn afsökunar á því að hafa brugðist í því að koma í veg fyrir þjóðarmorð.

Talsmenn utanríkisráðuneytis Frakklands, Romain Nadal, lýsir hinsvegar undrun á ásökunum rúanska forsetands og segir þær ganga gegn öllum sáttatilraunum milli þjóðanna. Dómsmálaráðherra Frakklands, Christiane Taubira, hefur afboðað komu sína á minningarathöfnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert