Rífa táneglur af og tennur úr með töngum

Átök geisa mjög víða í Sýrlandi. Óbreyttir borgarar eru yfirheyrðir …
Átök geisa mjög víða í Sýrlandi. Óbreyttir borgarar eru yfirheyrðir og fá grimmilega meðferð. AFP

Yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum fordæmdi í dag kerfisbundna notkun pyntinga í fangelsum í Sýrlandi. Í nýrri skýrslu kemur fram að föngum sé nauðgað, þeir barðir og neglur þeirra og tennur dregnar úr þeim.

„Niðurstaða okkar staðfestir það að pyntingar eru skipulega notaðar í fangelsum ríkisstjórnarinnar í Sýrlandi. Vopnaðir hópar pynta einnig fórnarlömb sín,“ segir Navi Pillay.

„Í vopnuðum átökum er litið á pyntingar sem stríðsglæpi. Þegar þær eru notaðar með kerfisbundnum hætti og mjög víða, sem er nánast örugglega málið í Sýrlandi, er einnig um að ræða glæpi gegn mankyninu.“

Skýrsla Sameinuðu þjóðanna byggir á viðtölum við 38 menn sem hafa lifað af pyntingar í fangelsum landsins. Þeir útskýrðu hvernig pyntingar eru notaðar með kerfisbundnum hætti gegn körlum, konum og börnum.

Þrítugur háskólanemi lýsir því í skýrslunni hvernig hann var barinn, skegg hans reytt og fætur hans brenndir í höfuðstöðvum flughersins þar sem hann var yfirheyrður árið 2012. Þá lýsti hann því hvernig tvær táneglur voru dregnar af með töngum.

26 ára kona sagði frá barsmíðum sem hún hlaut, nauðgun sem hún varð fyrir og hvernig tennur hennar voru dregnar úr.

„Þeir kölluðu okkur hórur og hræktu í andlit okkar,“ segir konan. Fjölskylda hennar afneitaði henni eftir að hún komst að því að henni hefði verið nauðgað.

Samkvæmt skýrslunni er það algengt að þeir sem færðir eru í fangelsin, m.a. til yfirheyrslna, séu barðir og niðurlægðir í nokkrar klukkustundir. Þetta er kallað „móttökuveisla.“

Rannsakendur komust einnig að því að nokkrir vopnaðir hópar nota pyntingar á karla, konur og börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert