Farþegar easyJet sítengdir

EasyJet þota lendir í Genf.
EasyJet þota lendir í Genf. mbl.is/afp

Farþegar breska flugfélagsins easyJet þurfa ekki lengur að slökkva á rafeindatækjum svo sem spjaldtölvum, snjallsímum, lestölvum og mp3-spilurum, hvorki í flugtaki eða lendingu eða þar á milli.

Lággjaldafélagið hefur rýmkað reglur um notkun rafeindatækja um borð í þotum sínum. Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum má vera linnulaust kveikt á þeim frá því fyrir flugtak og þar til eftir lendingu.

Áður var notkun smátækja af þessum toga bönnuð meðan á akstri, flugtaki og lendingu stóð. Um notkun þeirra nú gildir að farþegarnir sendi ekki smáskilaboð né freisti símtala meðan þeir eru inni í flugvélunum. Aukinheldur er bann lagt við því að menn reyni að vafra um á netinu í háloftunum.

Breska loftferðaeftirlitið hefur lagt blessun sína yfir ákvörðun easyJet og með ráðstöfunum sínum uppfyllir félagið nýlega útgefnar viðmiðunarleiðbeiningar Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA).  Það er undir einstökum flugfélögum komið hvort og hvernig þau leyfa notkun rafeindatækja um borð í flugvélum sínum.

British Airways var í desember sl. fyrsta flugfélagið til að rýmka notkun rafeindatækja og Ryanair sigldi í kjölfari í febrúar sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert