Útlit fyrir kjarnorkutilraun í N-Kóreu

Frá Norður-Kóreu.
Frá Norður-Kóreu. AFP

Talið er að Norður-Kóreumenn séu í óða önn við að undirbúa tilraun með kjarnavopn og jafnvel að undirbúningi hafi verið hraðað vegna heimsóknar Baracks Obama Bandaríkjaforseta til Suður-Kóreu. Stuðst er við gervihnattamyndir sem sérfræðingar segja benda til að kjarnorkutilraun sé í farvatninu.

Það er stofnunin Institute for Science and International Security (ISIS) sem birti skýrslu um málið og er í henni stuðst við gervihnattamyndir sem teknar voru á miðvikudag og í gær. Á þeim má sjá aukna starfsemi á stað sem talinn er vera næsta tilraunasvæði.

Norður-Kórea hefur á umliðnum árum þrívegis gert tilraunir með kjarnavopn, árin 2006, 2009 og 2013, og hefur alþjóðasamfélagið fordæmt þær allar harðlega. Hafa þær orðið til þess að grannt er fylgst með hvort N-Kóreumenn ráðist í fleiri slíkar tilraunir. 

ISIS bendir þó á að áður hafi orðið vart við aukna starfsemi á tilraunasvæðum N-Kóreumanna án þess að gerð hafi verið tilraun með kjarnavopn og mögulega séu stjórnvöld í Pyongyang aðeins að senda Bandaríkjaforseta skilaboð en hann hóf opinbera heimsókn sína til Suður-Kóreu fyrir helgi. Obama gagnrýndi stjórnvöld í Norður-Kóreu harðlega við komuna til Seoul og sagði þau frekar svelta þegna sína en gera þeim kleift að uppfylla drauma og þrár.

Obama sagði einnig að sú leið sem Norður-Kóreumenn hafi farið í kjarnorkumálum leiði eingöngu til aukinna einangrunar ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert