Fjórtán létust í skýstrókum

Skjáskot/YouTube

Fjórtán létust í öflugum skýstrókum í Arkansas og Oklahoma í Bandaríkjunum í gærkvöldi og nótt. Óveðrið fer nú yfir mið- og suðurríki Bandaríkjanna.

Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum Arkansas létust að minnsta kosti þrettán er mjög kraftmikill skýstrókur gekk þar yfir og lögreglustjórinn í Oklahoma segir að einn hafi látist í bænum Quapaw, skammt frá ríkjamörkum Kansas og Missouri.

Skýstrókurinn sem fór yfir Arkansas kom niður í um tíu mílna fjarlægð frá Little Rock um sjö leytið í gærkvöldi að staðartíma. Þaðan hélt hann í norðausturátt. Mikil mildi er að hann fór ekki yfir sjálfa borgina en úthverfi Little Rock urðu illa úti og fjölmörg hús eyðilögðust í Mayflower og Vilonia. 

Sjö þeirra sem létust í Arkansas bjuggu í Faulkner sýslu en Mayflower tilheyrir henni. Fimm létust í Pulaski sýslu og einn í  White County.

Tæpum tveimur klukkustundum áður en hvirfilbylurinn reið yfir Arkansas gekk annar yfir norðausturhluta Oklahoma og lést einn í Quapaw og sex eru slasaðir. AP fréttastofan segir að tveir til viðbótar hafi látist í Oklahoma en almannavarnir hafa ekki staðfest það.

Hvirfilbylur eða skýstrokkur er loft sem snýst ógnarhratt í hring, líkt og iða sem myndast yfir útfalli í baðkari þegar vatnið streymir út, að því er segir á Vísindavef HÍ. Í samanburði við lægðir og fellibylji eru hvirfilbyljir örsmáir og skammlífir, en vindhraðinn í þeim getur samt verið meiri. Hvirfilbyljir eru aðeins nokkur hundruð metrar í þvermál, en ferðast hæglega á annað hundrað kílómetra á 1-2 klukkustundum. Vindhraði í hvirfilbyljum getur farið yfir 100 m/s og er eyðilegging í samræmi við það.

Sökum smæðar hvirfilbylja hefur svigkraftur jarðar hverfandi áhrif á þá. Engu að síður blæs vindur oftar en ekki rangsælis umhverfis hvirfilbylji á norðurhveli jarðar. Eru þar að líkindum komin áhrif sem svigkraftur jarðar hafði á loftstrauminn þar sem hvirfilbylurinn myndaðist.

Hvirfilbyljir myndast í mjög óstöðugu lofti, gjarnan í grennd við þrumuveður. Þeir tengjast miklu uppstreymi á takmörkuðu svæði. Í stað þess lofts sem streymir upp leitar loft inn að miðju uppstreymisins og við það margfaldast snúningur þess, líkt og þegar listdansari á skautum leggur hendurnar upp að líkamanum.

Öflugir hvirfilbyljir eru algengir á vorin í Bandaríkjunum og einnig í Ástralíu. Hvirfilbyljir eru sjaldgæfir á Íslandi, og yfirleitt ekki svo ýkja öflugir þá sjaldan þeir verða. 

Tíu látnir í skýstrókum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert