Fundað um mannrán í Stokkhólmi

Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu
Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu AFP

Þriggja daga löngum viðræðum milli Japana og Norður-Kóreumanna lauk í Stokkhólmi fyrir stuttu. Að sögn fundarmanna kom á tímabili til snarpra orðaskipta milli fulltrúa landanna, en helsta umræðuefni fundarins voru mannrán sem Norður-Kóreumenn frömdu á árunum milli 1970 og 1990. Þar rændu þeir þrettán japönskum ríkisborgurum í því skyni að láta þá kenna norður-kóreskum njósnurum japanska tungu og siði. 

Engin bein niðurstaða náðist með fundarhöldunum að sögn aðalsamningamanns Japan, Junichi Ihara, en samþykkt var að halda viðræðum áfram á næstunni. Sambærilegur fundur var haldinn í Peking í mars síðastliðnum, en þar var um að ræða fyrsta fund þjóðanna í sextán mánuði. 

Mannránin eru mikið hitamál í japönsku samfélagi og yrði það ríkisstjórn landsins til mikils framdráttar næði hún að knýja fram lausn í málinu að sögn Linusar Hagstroem, sérfræðings í alþjóðastjórnmálum í Stokkhólmi.

Fimm af Japönunum þrettán var sleppt og hleypt aftur til síns heima en stjórnvöld í Pyongyang halda því fram að hinir átta séu allir látnir, án þess þó að geta lagt fram nokkur gögn máli sínu til stuðnings. Hagstroem er ekki bjartsýnn á að viðræðurnar muni skila árangri byggt á fyrri reynslu.

„Svipaðar viðræður hafa átt sér stað áður án þess að leiða til neinnar niðurstöðu, þannig að ég er nokkuð svartsýnn á framhaldið,“ segir Hagstroem.

Junichi Ihara, aðalsamningamaður Japana
Junichi Ihara, aðalsamningamaður Japana AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert