Engin lyf við skæðasta vírusi heims

Læknar án landamæra með lík manns sem lést úr ebóla …
Læknar án landamæra með lík manns sem lést úr ebóla í Gíneu. AFP

Heilbrigðisráðherrar ríkja í Vestur-Afríku funda í dag um aðgerðir gegn hættulegasta faraldri ebólu sögunnar. Sífellt fleiri tilfelli greinast. 759 tilfelli hafa greinst í Gíneu, Líberíu og Sierra Leone undanfarið. 467 hafa látist.

„Þessi faraldur ebólu er sá mesti hingað til hvað varðar fjölda tilfella, dauðsfalla og útbreiðslu,“ segir í yfirlýsingu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. 

Ráðstefna heilbrigðisráðherranna er haldin í Accra í Gana og mun standa í tvo daga. Ráðherrar ellefu landa taka þátt.

„Ákvarðanir sem teknar verða á þessum fundi skipta sköpum um hvernig brugðist verði við faraldrinum“ segir í yfirlýsingu WHO.

Ebólu-faraldurinn braust út í Vestur-Afríku í janúar. Fyrstu tilfellin komu upp í Gíneu. WHO hefur sent yfir 150 sérfræðinga á svæðið til að bregðast við og reyna að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Þrátt fyrir það hefur tilfellum fjölgað verulega og það sem verra er, þeim fjölgar hratt. 

Samtökin Læknar án landamæra segja að faraldurinn sé nú orðinn „stjórnlaus“. Búið er að greina um 60 svæði þar sem hann er að breiðast út.

Um 90% þeirra sem smitast af ebóla-vírusnum deyja.

Hætta á frekari útbreiðslu

WHO varar við því að hætta sé á að vírusinn breiðist til enn fleiri landa. Þá segir stofnunin að löndin þar sem vírusinn hefur þegar greinst eigi í erfiðleikum með að halda honum í skefjum.

Helsti sérfræðingur WHO í ebóla-vírusnum, Pierre Formenti, segir að orsök faraldursins nú megi rekja til þess að Afríkulönd hafi dregið of fljótt úr fyrirbyggjandi aðgerðum er draga fór úr fjölda tilfella í apríl. 

„Eitt tilfelli getur valdið faraldri,“ segir hann. Nóg er að snerta sýkta manneskju til að smitast af ebóla en vírusinn leynist í líkamsvökvum, m.a. svita.

Í Gíneu hafa 413 tilfelli greinst og 303 látist. Í Líberíu hafa 107 greinst og 65 látist. Í Sierra Leone hafa 239 tilfelli greinst og 99 látist. 

 Ebóla skaut fyrst upp kollinum árið 1976 í Austur-Kongó. Í faraldri sem þá braust út létust 280 manns. 

Ebóla er mjög skæður vírus, einn sá hættulegasti í heimi. Hann fellir þá sem smitast á örfáum dögum. Fólk þjáist, fær mikla verki og háan hita. Það verður slappt, kastar upp og fær niðurgang. Í sumum tilfellum verða líffæri óstarfhæf og miklar blæðingar verða. 

Enn er ekkert lyf eða bóluefni til við ebóla. Í þróun eru nokkur bóluefni og sum þeirra eru sögð lofa góðu.

Nafn vírussins er dregið af lítilli á í Austur-Kongó.

Talið er að hýsill vírussins sé leðurblaka sem heldur til í frumskógum Afríku. Vírusinn hefur m.a. borist í fólk sem hefur umgengist simpansa, górillur og önnur dýr, lifandi og dauð.

Starfsmaður Lækna án landamæra á sótthreinsaðri sjúkradeild í Gíneu.
Starfsmaður Lækna án landamæra á sótthreinsaðri sjúkradeild í Gíneu. AFP
Starfsmaður Lækna án landamæra undirbýr sig fyrir að sinna sjúklingi …
Starfsmaður Lækna án landamæra undirbýr sig fyrir að sinna sjúklingi smituðum af ebóla. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert