Enn eru flugöryggisreglur hertar

Mynd/AFP

Í kjölfar hryðjuverkaárásanna á tvíburaturnana í New York árið 2001 hófu yfirvöld í Evrópu og Bandaríkjunum að herða verulega öryggisreglur á flugvöllum til þess að svara þeirri nýju ógn sem hafði brotist út - hryðjuverkaógninni. 

Önnur ríki, í Afríku meðal annars, hafa ekki hert reglur sínar eins mikið og Evrópa og Bandaríkin. Evrópusambandið hefur brugðist við þessu með því að beina þeim tilmælum til evrópskra flugfélaga að beita sömu öryggisreglum á flugvöllum innan Evrópu, sem utan. 

Árið 2002, ári eftir árásirnar á tvíburaturnana, var flugöryggisreglum víða breytt þannig að allir farþegar þurfa að þola öryggisrannsókn á sér og farangri sínum. Slíkar öryggisrannsóknir, gegnumlýsing og málmleitarhlið, voru áður aðeins notuð í takmörkuðum mæli. 

Í Evrópu og Bandaríkjunum voru það ár einnig settar strangar reglur um allar póstsendingar á milli landa, flugvallarstarfsmenn og flugáhafnir. Bandaríkin gengu svo enn lengra en Evrópa og innleiddi reglur um fingrafaraskoðun. 

Árið 2006 dró svo til tíðinda þegar þrír menn voru handteknir, grunaðir um að ætla að sprengja flugvél í loft upp yfir Atlantshafi með fljótandi sprengiefni. Eftir þetta atvik bannaði Evrópusambandið farþegum að ferðast með flugvél með meira en 100 ml af vökva á sér. 

Sú bannregla var endurnýjuð árið 2010 en talið er að eftir því sem tækninni fleytir fram, verði brátt komnir nægilega góðir skannar sem geta greint innihald í flöskum, og þar með verði þetta bann óþarft. 

Eftir að upp komst um hryðjuverkaárás árið 2009 báðu bandarísk yfirvöld flugfélög um að auka öryggisgæslu sína, og var þess krafist leita mætti á farþegum alveg þar til þeir væru komnir inn í flugvélarnar. Þá var eftirlit með farangri aukið til muna. 

Í nóvember 2011 ákvað Evrópusambandið að heimila notkun líkamsskanna á flugvöllum, sem getur skoðað hvort fólk sé með efni á sér innvortis. Aðeins fáir slíkir skannar eru þó til. Einn er í notkun í London. 

Í gær ákváðu bandarísk yfirvöld að auka öryggisgæslu á flugvöllum í Mið-Austurlöndum og Evrópu þaðan sem flogið er beint til Bandaríkjanna. Ástæðan var sú að þau fengu ábendingu um að íslamskir öfgahópar séu búnir að þróa nýja tegund af sprengiefni sem hægt sé að nota til þess að sprengja flugvélar í loft upp. 

Í dag ákváðu svo bresk stjórnvöld að herða flugöryggisreglur sínar með fleiri handahófsleitum og betri athugunum á skóm og sokkum farþega. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert