Hópur Ísraelsmanna handtekinn

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Ísraelska lögreglan hefur handtekið hóp ísraelskra öfgamanna í tengslum við rannsóknina á morði á sextán ára palestínskum pilti í Jerúsalem í síðustu viku.

Ísraelska dagblaðið Haaretz fullyrðir að lögreglan hafi sex manns í haldi.

Eins og kunnugt er hafa Palestínumenn haldið því statt og stöðugt fram að ísraelskir öfgamenn hafi myrt piltinn í hefndarskyni eftir að þrír ungir ísraelskir drengir, á aldrinum sextán til nítján ára, voru myrtir í síðasta mánuði.

Í frétt AFP segir að ísraelska lögreglan hafi vísbendingar um að þjóðernissinnar hafi verið að verki.

Mikil togstreita hefur verið í samskiptum Ísraelsmanna og Palestínumanna vegna málsins og hefur mikið verið um mótmæli í Jerúsalem.

Í morgun biðlaði Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, til ráðherra innan ríkisstjórnar sinnar að gæta hófs í aðgerðum sínum og sjá til þess að andrúmsloftið í samskiptum ríkjanna yrði betra. Ráðherrunum ber ekki saman um hvort og þá til hvaða aðgerða skuli grípa til að bregðast við morði ísraelsku unglinganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert