Hamast gegn einangruðum íslamistum

Eldglæringar eftir loftárás Ísraelsmanna á Rafah á suðurhluta Gaza svæðisins …
Eldglæringar eftir loftárás Ísraelsmanna á Rafah á suðurhluta Gaza svæðisins snemma morguns 11 .júlí. AFP

Fréttaskýrendur eru ekki á einu máli um hvað vakir fyrir Hamas, samtökum palestínskra íslamista, sem hafa haldið uppi stöðugum flugskeytaárásum á Ísrael síðustu daga. Þeir benda á að samtökin hafa einangrast á síðustu misserum, misst mikilvæga bandamenn, og fylgi þeirra minnkað meðal Palestínumanna vegna efnahagsþrenginga á Gaza-svæðinu.

Hamas-menn hafa meðal annars misst stuðning Bræðralags múslima í Egyptalandi eftir að leiðtoga íslömsku samtakanna, Mohammed Morsi, var steypt af stóli forseta í Kaíró. Stuðningur Hamas við uppreisnarmenn úr röðum súnníta í Sýrlandi hefur einnig reynst samtökunum dýrkeyptur. Klerkastjórnin í Íran krafðist þess að Hamas-menn styddu einræðisstjórnina í Sýrlandi og þegar þeir neituðu því ákváðu Íranar að hætta að veita þeim fjárhagslegan og hernaðarlegan stuðning.

Hamas-samtökin höfðu einnig fengið fé frá Katar en stjórnvöld í Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Barein knúðu Katara til að láta af stuðningnum.

Margir fréttaskýrendur undrast því að Hamas skuli nú hætta á langvinn og kostnaðarsöm átök við Ísraelsher í ljósi þess að mjög erfitt verður fyrir samtökin að endurnýja vopnabúnað sinn ef hernaður Ísraela ber árangur. Nokkrir þeirra hafa gengið svo langt að segja að flugskeytaárásir Hamas og fleiri palestínskra hreyfinga leiði til sjálfseyðileggingar.

Óttast að þeir missi völdin

„Þeir telja sig ekki hafa neinu að tapa,“ hefur fréttavefur The Guardian eftir Mkhaimar Abusada, stjórnmálafræðingi við Al-Azhar háskóla í Kaíró, sem hefur rannsakað samtökin. „Þeir treysta á að samið verði um vopnahlé og þegar það gerist hjarni Hamas við.“

Abusada segir Hamas-menn einnig ganga út frá því að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sé tregur til að hætta á langvinn átök á Gaza-svæðinu. „Samtökin telja sig geta þolað þjáningarnar sem fylgja átökunum og að Ísraelar hafi áhyggjur af því að enn róttækari fylkingar, svo sem salafistar, taki við völdunum af Hamas. Hamas-menn vita að Ísraelar fara ekki alla leið til að brjóta þá á bak aftur, en til þess þyrftu þeir að hernema Gaza á ný og ísraelskir hermenn þyrftu að leita dyrum og dyngjum að Hamas-mönnum.“

Fréttaskýrandi The Jerusalem Post, Khaled Abu Toamen, telur að leiðtogar Hamas séu farnir að leita að leið til að binda enda á átökin og óttist að hernaður Ísraela verði til þess samtökin hrökklist frá völdum á Gaza-svæðinu. Toamen segir að það hafi komið leiðtogum Hamas á óvart hversu hörð viðbrögð Ísraelshers hafi verið við flugskeytarásunum frá Gaza-svæðinu. Þeir hafi talið að Ísraelar myndu grípa til takmarkaðra aðgerða og forðast árásir á heimili liðsmanna Hamas-samtakanna á Gaza.

Leiðtogar Hamas hafa hvatt Egypta og fleiri arabaþjóðir til að miðla málum og stöðva loftárásir Ísraelshers, sem hafa kostað tugi Palestínumanna lífið, meðal annars mörg börn, konur og fleiri saklausa borgara. Ólíklegt þykir þó að nýi forsetinn í Egyptalandi, Abdel Fattah al-Sisi, leggi mikið kapp á að bjarga Hamas-mönnum, gömlum bandamönnum óvina hans í Bræðralagi múslima. Stjórn Mahmouds Abbas, leiðtoga Palestínumanna á Vesturbakkanum, hefur fordæmt loftárásir Ísraelshers en ólíklegt er að hún leggi mikið á sig til að koma Hamas til bjargar. Hamas og hreyfing Abbas, Fatah, hafa lengi eldað grátt silfur og Fatah-menn myndu því ekki sýta það ef Ísraelar brytu íslömsku samtökin á bak aftur og kæmu þeim frá völdum á Gaza.

Nokkrir fréttaskýrendur telja jafnvel að Ísraelsstjórn hafi fyrirskipað lofthernaðinn eftir að hafa haft samráð við Egypta, að sögn ísraelska fréttavefjarins Haaretz.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert