Pele veðjar á Þýskaland

Brasilíska fótboltagoðsögnin Pelé telur að Þjóðverjar fari með sigur af hólmi í úrslitaleiknum gegn Argentínu í kvöld. Pele varð þvívegis heimsmeistari með Brasilíu, 1958, 1962 og 1970. Hann segist vona að brasilíska liðið komi tvíeflt til leiks á næsta heimsmeistaramóti.

„Ég sagði það frá upphafi að Þýskaland gæti verið í úrslitunum. Reyndar nefndi ég Spán líka, en Spánn er dottinn út,“ sagði Pelé í dag, umsetinn af fjölmiðlum sem spurðu hann um úrslitin í kvöld.

Pelé sagði að afhroð Brasilíu á mótinu hefði komið á óvart. „Kannski getum við jafnað okkur fyrir næsta mót. Það veit enginn almennilega hvað gerðist, þetta kom mjög á óvart, var alveg hrikalegt.“

Pelé var á dögunum valinn besti leikmaður sögunnar í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu, af breska blaðinu Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert