Ísraelar samþykkja vopnahléstilboðið

AFP

 Ísraelsþing hefur samþykkt vopnahléstilboð sem Egyptar hafa lagt fram en Hamas setur skilyrði fyrir vopnahléi. Ekkert formlegt svar hefur borist frá Hamas varðandi vopnahléstilboðið.

Samþykkt var fyrir skömmu tillaga stjórnvalda í Egyptalandi um að stríðandi fylkingar á Gaza semdu um að vopnahlé tæki gildi strax. Árásir hafa verið á bága bóga í viku og hafa 192 Palestínumenn látist í árásum Ísraelshers á Gaza. Ekkert mannfall hefur orðið vegna árása hernaðararms Hamas frá Gaza yfir til Ísraels en fjórir hafa slasast alvarlega.

Tilboð Egypta var lagt fram í kjölfar viðvörunar frá bandarískum stjórnvöldum til Ísraela vegna fyrirhugaðs landhernaðar. Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, fagnar tillögu Egypta og segir dauða almennra borgara á Gaza harmleik. Hann ítrekaði á sama tíma að Ísraelar hefðu rétt á að verjast eldflaugaárásum frá Gaza.

Talsmaður Hamas, Fawzi Barhum, sagði í viðtali við AFP í gærkvöldi að ekki yrði samið um vopnahlé nema samningum yrði náð fyrst. „Á stríðstímum er vopnahléi ekki komið á og síðan samið,“ segir hann.

Samkvæmt BBC tala liðsmenn Hamas um að vopnahlé nú væri uppgjöf en tilboð Egypta kom fram að loknum miklum fundahöldum um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs í Kaíró í gær. 

Um 80% þeirra sem hafa beðið bana í loftárásum Ísraelshers á Gaza-svæðið voru óbreyttir borgarar og rúm 20% börn, að sögn OCHA, samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum. Frá því að árásirnar hófust hafa þær að meðaltali kostað sex börn lífið á dag.

Um 940 íbúðir á Gaza-svæðinu höfðu verið lagðar í rúst í árásunum og áætlað er að um 5.600 Palestínumenn hafi misst heimili sín, að því er fram kemur í skýrslunni. Auk þeirra hafa um 16.000 manns flúið heimili sín og leitað athvarfs í tuttugu skólum á norðanverðu Gaza-svæðinu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert