Kerry segir Hamas þrjóskast við

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakaði í dag Hamas-samtökin um að viðhalda ófriði fyrir botni Miðjarðarhafsins. Hann sagði Hamas hafna öllum tilboðum um vopnahlé, þrjóskast þannig við og koma í veg fyrir frið á svæðinu.

„Þeim hefur verið boðið vopnahlé en því hafa samtökin hafnað,“ sagði Kerry í viðtali við ABC-fréttastofuna. Einnig að samtökin þrjóskuðust við þrátt fyrir að meira segja stjórnvöld í Egyptalandi hefðu talað fyrir vopnahléi.

Meira en sextíu Palestínumenn létu lífið í árásum Ísraela á Gaza í nótt og hefur Arababandalagið fordæmt árásirnar. „Það sem gekk á í Shejaiya í nótt var hrottalegt sprengjuregn og í raun stríðsglæpir gegn almennum borgurum. Einnig er þetta hættuleg þróun mála sem getur haft geigvænlegar afleiðingar,“ sagði Nabil al-Arabi, formaður Arababandalagsins.

Hann kallaði eftir því að Ísrael legði niður vopn hið snarasta. „Ísrael ber alla ábyrgð á þessum glæpum, morðum á tugum saklausra Palestínumanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert