Lestin lögð af stað með líkin

Í lestinni eru líkamsleifar margra þeirra sem fórust með farþegaþotunni.
Í lestinni eru líkamsleifar margra þeirra sem fórust með farþegaþotunni. AFP

Lest full af líkum þeirra sem fórust með malasísku farþegaþotunni í Úkraínu, er nú loks lögð af stað til borginnar Kharkiv. Þaðan verður flogið með líkin til Hollands. Aðskilnaðarsinnar á svæðinu höfðu tafið för lestarinnar. Þeir hafa nú leyft henni af leggja af stað og sömuleiðis samþykkt að afhenta flugrita vélarinnar, sem þeir hafa haft í sinni vörslu. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Vélin var skotin niður í austurhluta Úkraínu á fimmtudag. Allir sem voru um borð létust, alls 298 manns. Ekki eru lík allra þeirra sem voru um borð í vélinni í lestinni. Í frétt Sky segir að 282 lík séu í lestinni sem nú hefur lagt af stað frá Torez.

Líkin verða flutt með herflugvél hollenska hersins til Hollands.

Aðskilnaðarsinnar, sem eru fjölmargir á svæðinu, hafa tafið rannsókn á flaki vélarinnar. Þeir eru enn að berjast við úkraínska herinn á meðan öllu þessu stendur, nú aðallega í Donetsk, borg sem enn er á þeirra valdi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert