Olíuborpallar helstu skotmörkin

Olíuborpallur Statoil í Norðursjó
Olíuborpallur Statoil í Norðursjó Mynd:Harald Pettersen / Statoil

Norðmenn hafa töluverðar áhyggjur af öryggi olíuborpallanna sinna í kjölfar hótana um yfirvofandi hryðjuverkaárás sem öryggislögreglunni PST hafa borist og greint var frá í dag. Stjórnvöld og PST telja að olíuborpallar séu helstu skotmörkin í hugsanlegum hryðjuverkaárásum. 

Viðskiptablaðið Dagens næringsliv ræddi við Bernard Duncan Lyng í dag, fyrrum öryggisstjóra Statoil í Noregi. Hann telur hins vegar að öryggismál séu í betri standi á olíuborpöllunum en annars staðar í landinu. 

„Það er ekki vegna þess að við Norðmenn höfum verið svo duglegir, heldur vegna þess að Bandaríkjamenn og Frakkar sem komu hingað til þess að byggja borpallana á áttunda áratugnum tóku með sér alþjóðlegar öryggisreglur og mælikvarða. Síðan þá hafa öryggismálin á olíuborpöllum farið eftir alþjóðlegum reglum,“ segir Lyng. 

Þegar Lyng hóf störf hjá Statoil árið 1984 var fyrirtækið þegar farið að æfa viðbrögð við árásum á borpallana í samstarfi við norska herinn. Þá voru einnig sett upp öryggishlið á borpöllunum og farangur allra starfsmanna skoðaður. Hann segir hins vegar að lítið hafi breyst eftir hryðjuverkin þann 22. júlí árið 2011 þrátt fyrir ákall um betri varnir. Haustið 2013 gagnrýndi Þjóðaröryggisráð Noregs, olíu- og orkumálaráðuneytið sem hafði gefið út bréf þar sem kom fram að engir borpallar í landinu þyrfti á bættu öryggi að halda. 

Sjá frétt Dagens næringsliv

Sjá frétt mbl.is: Hryðjuverkahótun í Noregi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert