Hættir sem formaður Íhaldsflokksins

Lars Barfoed hætti í dag sem leiðtogi danska Íhaldsflokksins.
Lars Barfoed hætti í dag sem leiðtogi danska Íhaldsflokksins. Mynd/Wikipedia

Lars Barfoed, leiðtogi danska Íhaldsflokksins frá árinu 2011 hefur látið af störfum eftir brösugt gengi í kosningum undanfarin ár. Heimildarmönnum Jyllands-posten ber þó ekki saman um aðdraganda afsagnarinnar. 

Sumir miðlar halda því fram að Barfoed hafi sjálfur viljað stíga til hliðar, á meðan aðrir vilja meina að þrýstingur innan úr flokknum hafi verið of mikill til þess að honum hafi áfram verið stætt sem leiðtogi. Barfoed hefur gegnt bæði stöðu formanns og leiðtoga (d. politisk leder). Hann lætur nú af störfum sem leiðtogi, en mun áfram sitja sem formaður fram að næsta landsfundi flokksins sem haldinn verður í september.

Sören Pope Poulsen, borgarstjóri Viborg, tekur við sem leiðtogi flokksins formlega á morgun áður en hann tekur svo formlega við formennsku í september. Hann situr ekki á þingi og er því í sérstakri stöðu. 

Íhaldsflokknum hefur ekki gengið vel í síðustu þingkosningum. Árið 2011 hlaut flokkurinn átta þingmenn kjörna sem er lélegasta gengi flokksins í þingkosningum frá stofnun hans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert