Vonir bundnar við frið á Gasa

Biden og Netanjahú ræddu friðarsamkomulag.
Biden og Netanjahú ræddu friðarsamkomulag. Samsett mynd/AFP

Bandaríkjamenn binda miklar vonir við að samið verði um vopnahlé á Gasasvæðinu en eins og fram hefur komið hafa Ísraelsmenn samþykkt að bjóða 40 daga vopnahlé fyrir tilstilli milligöngu Egypta og Katar.

Samkomulagið inniheldur einnig orðalag sem gerir það að verkum að ekki er lokum fyrir það skotið að vopnahlé verði til frambúðar. Enn fremur inniheldur það tilmæli um að Hamas-samtökin sleppi eftirlifandi gíslum.

Stjórnvöld í Ísrael eru sögð hafa beitt auknum þrýstingi af vestrænum bandamönnum sínum um að beita sér fyrir friði á Gasasvæðinu.

Höfnuðu samkomulagi í upphafi mánaðar

Um 1.200 Ísraelsmenn voru drepnir 7. október og 253 gíslar teknir. 34.480 manns hafa hins vegar látist á Gasasvæðinu frá því Ísraelar hófu árásir samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum Hamas-samtakanna.

Í nóvember var slegið samkomulag sem leiddi til vikulangs vopnahlés. Voru 105 ísraelskum gíslum sleppt og um 240 Palestínumönnum sem voru í fangelsum í Ísrael.

Egyptar og Katarar hafa vikum saman reynt að beita sér fyrir samkomulagi sem hugnast getur báðum aðilum. Enn eru 133 gíslar frá Ísrael í haldi og af þeim eru 30 taldir af.

Fyrr í apríl höfnuðu forsvarsmenn Hamas samkomulagi sem fól meðal annars í sér sex vikna vopnahlé auk lausnar 40 kvenna og barna úr haldi samtakanna samhliða lausn hundruð Palestínumanna úr fangelsum í Ísrael.

Biden í samtalinu 

Joe Biden forseti Bandaríkjanna er sagður hafa hvatt Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, til að taka friðarviðræður alvarlega.

Eru samræður meðal annars sagðar hafa beinst að nauðsyn þess að hjálparaðstoð næði til almennra borgara í ríkara mæli.

Þá er Biden sagður andvígur fyrirhugaðri sókn Ísraelsmanna að Rafah þar sem vígamenn Hamas-samtakanna eru sagðir halda sig. Ku afstaða Biden vera lituð af því að ráðgjafar hans segi að ómögulegt sé að framkvæma slíka árás án þess að mannfall almennra borgara verði mikið.

Israel Katz, utanríkisráðherra Ísrael sagði í gær að hætt yrði við fyrirhugaða árás ef ísraelskum gíslum verður sleppt.

Hitinn eykst 

Á sama tíma gerir hækkandi hitastig það að verkum að flóttamenn sem viðhafast í tjöldum í borginni eru að farast úr hita.

Fimm mánaða gamalt barn er eitt þeirra sem sagt er hafa látist vegna hita í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert