„Þá sjaldan að maður fær góðar fréttir“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, fóru yfir stöðu mála á þinginu í dag. Samsett mynd/mbl.is/Arnþór

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir stefnt að því að ljúka vinnu við frumvarp um mannréttindastofnun á þessu þingi. „Þá sjaldan að maður fær góðar fréttir,“ sagði þingmaður Pírata sem fagnaði svari ráðherra. 

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar spurði Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, Bjarna um stöðu málsins. 

Hún benti á að málið, sem er frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, væri ekki komið á dagskrá nefndar og ekki væri að sjá að gert væri ráð fyrir stofnuninni í fjárlögum, þó að minnst væri á hana í fjármálaáætlun.

Forsenda lögfestingar sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Arndís Anna sagði að stofnunin væri forsenda lögfestingar sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og tengdist ýmsum öðrum frumvörpum og tillögum sem vær til umræðu í þinginu, meðal annars. varðandi réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

„Mig langar því að spyrja hæstvirtur forsætisráðherra, þar sem ég tel ljóst að þetta bendi til þess að ekki standi til að afgreiða málið á þessu þingi og það sé ekki í forgangi hjá hæstvirtum forsætisráðherra, hvort það sé vegna þess að hæstvirtur forsætisráðherra hefur ekki áhuga á málinu eða hvort það sé vegna þess að hann er á móti því,“ spurði Arndís Anna.

Var tekið fyrir á fundi þar sem Píratar voru fjarverandi

Bjarni sagði að staðreynd málsins væri sú að málið hefði verið tekið fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær þar sem fulltrúi Pírata hefðu verið fjarverandi „sem vonandi er ekki til vitnis um áhugaleysi á störfum nefndarinnar. Málið er á forræði þingsins. Eftir að mælt hefur verið fyrir málinu þá er þingið komið með málið. Ég get bara talað fyrir stjórnarflokkana, þeir hyggjast klára þetta mál og ég trúi því að það geti gengið eftir.“

Arndís Anna fagnaði svörum Bjarna.

„Þá sjaldan að maður fær góðar fréttir hérna í óundirbúnum fyrirspurnum, ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir svarið og fagna þessu. Ég vil kannski fylgja eftir spurningu minni; hvort hæstvirtur ráðherra sjái fyrir sér að stofnunin verði að veruleika fyrir lok kjörtímabilsins, hvort þetta frumvarp eigi að fara í gegn núna á þessu þingi eða hvort það muni bíða næsta þings?“

„Við erum að horfa til þess að ljúka þingmálinu um Mannréttindastofnun á þessu þingi, þannig að því sé svarað,“ sagði Bjarni. 

Frumvarp um sanngirnisbætur flókið mál

Arndís Anna spurði jafnframt um arfleifð Katrínar í tengslum við frumvarp um sanngirnisbætur. „Ég vil spyrja ráðherra hvort hann styðji frumvarpið eins og það fór til þingsins og hvernig hæstvirtur ráðherra telur best að klára það mál?“

Bjarni sagði að sagði að það væri sömuleiðis mál sem væri á forræði Alþingis.

„Ég studdi það að málið kæmi fyrir þingið eins og það hafði verið samið en ég sá fyrir að það myndi fá margar umsagnir, enda gríðarlega snúið og flókið viðfangsefni hér á ferðinni. Það er í mínum huga ekki óeðlilegt þegar við erum að fást við jafn viðkvæm mál sem teygja sig svona langt aftur í tímann og eru hvert um sig sérstakt, ekki síst í ljósi þess að við höfum áður tekist á við sambærileg mál með sérstökum ákvörðunum en ekki með svona almennum hætti eins og lagt er upp með í þessu frumvarpi, að það geti tekið tíma fyrir okkur á þinginu að sammælast um leiðir til þess að gera upp þessi erfiðu gömlu mál. Mér sýnist að það verði að nota umsagnirnar til þess að vinna frekar úr málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert