Vilja banna kynfræðslu barna undir níu ára

Rishi Sunak, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, segir foreldra verða að geta treyst …
Rishi Sunak, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, segir foreldra verða að geta treyst því að börn fái kennslu í samræmi við aldur þeirra. AFP/Henry Nicholls

Skólum í Bretlandi verður bannað að kenna börnum yngri en níu ára kynfræðslu ef nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar, sem kynnt verður í dag, verður samþykkt á þinginu. 

Er frumvarpið svar við áhyggjum af inntaki þess námsefnis sem nemendum yngri en níu ára er boðið upp á, segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneyti Bretlands. 

„Foreldrar treysta því þegar þeir senda börn sín í skóla að þau séu örugg og að ekki sé otað að þeim kennsluefni sem er óviðeigandi fyrir aldur þeirra,“ er haft eftir Ris­hi Sunak, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, í tilkynningunni. 

„Þess vegna var ég skelfingu lostinn að heyra að þetta væri að gerast í okkar kennslustofum á síðasta ári.“

Kenna ekki „umdeilda“ kenningu um kynvitund

Auk banns við kynfræðslu fyrir yngri en níu ára verður „hin umdeilda kenning um kynvitund ekki kennd“, segir jafnframt í tilkynningu ráðuneytisins. 

Er þetta skref tekið í kjölfar úttektar sem birt var í síðasta mánuði þar sem hvatt var til „mikillar varkárni“ við ávísun karl- og kvenkynshormónameðferða fyrir ungt fólk. 

Í frumvarpinu verður þó lagt til viðbótarefni um sjálfsvígsforvarnir þar sem fjallað er um áhættuna af því að skoða efni á netinu sem stuðlar að sjálfsskaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert