FBI rannsakar dauða Browns

Stúlka setur klút fyrir vitin er lögreglan beitti táragasi á …
Stúlka setur klút fyrir vitin er lögreglan beitti táragasi á mótmælendur í Missouri. AFP

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur hafið rannsókn á dauða Michaels Browns, unglingspilts sem lögreglumaður skaut til bana í úthverfi í Missouri. Gríðarleg reiði hefur brotist út meðal almennings sem segir að kynþáttafordómar hafi orðið til þess að drengurinn var skotinn. 

Fjölskylda Browns krefst réttlætis. Sjónarvottum og lögreglunni ber ekki saman um hvernig dauða Browns bar að. Hann var átján ára og átti að hefja háskólanám nú í haust. Skotárásin átti sér stað um hábjartan dag síðasta laugardag.

„Við tejlum að þegar rannsókninni verður lokið verði þetta allt mjög skýrt. Hvernig þetta gerðist og hvernig þetta barn var tekið af lífi,“ segir Benjamin Crump, lögmaður fjölskyldu Browns. 

Fjölmenn mótmæli hafa verið allt frá því að árásin átti sér stað. Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglunnar sem beitti táragasi og kylfum.

32 voru handteknir á sunnudag vegna mótmælanna. Flestir þeir sem búa í bænum Ferguson, þar sem drengurinn var skotinn, eru svartir. Hins vegar eru flestir lögreglumenn bæjarins hvítir.

Í gær var einnig boðað til mótmæla en enginn var handtekinn.

Ríkissaksóknarinn Eric Holder segir ítarleg rannsókn verði gerð á því hvernig dauða Browns bar að.

Dauði Browns hefur vakið upp mál Trayvons Martins sem íbúi í Flórída við nágrannavörslu, George Zimmerman, skaut til bana, að því er hann segir í sjálfsvörn. Hann var ákærður fyrir manndráp en síðar sýknaður.

„Enn og aftur er gerð tilefnislaus árás á litaðan einstakling,“ sagði lögmaðurinn Crump í gær.

Sjónarvottur, Dorian Johnson, segir að hann hafi verið á göngu með Brown er lögreglumaður kom á móti þeim og tók upp byssu sína. Hann segir að lögreglumaðurinn hafi skotið Brown, jafnvel þó að drengurinn hafi snúið sér við og rétt upp hendurnar er lögreglumaðurinn nálgaðist hann. 

Johnson segir að lögreglumaðurinn hafi skotið nokkrum skotum.

Lögreglustjórinn í St. Louis sýslu sagði á blaðamannafundi í gær að Brown hefði ráðist á lögreglumanninn og reynt að ná af honum byssunni.

Fjölmiðlar í St. Louis segja að málið sýni þá spennu sem er milli svartra íbúa í Ferguson og lögreglunnar, sem er að mestu skipuð hvítum lögreglumönnum. 

Móðir Browns, Lesley McSpadden, sagði á sunnudag að sonur hennar hefði nýlokið við framhaldsskóla. Hann átti að hefja háskólanám í vikunni.

„Veistu hvað það var erfitt fyrir mig að fá hann til að vera í skóla og útskrifast? Veistu hversu margir svartir menn útskrifast? Ekki margir,“ sagði hún. „Þeir eru dregnir niður á stað þar sem þeim finnst þeir ekki hafa neitt að lifa fyrir.“

Frétt mbl.is:

Skaut 18 ára óvopnaðan pilt

Margir hafa mótmælt skotárás lögreglunnar á 18 ára svartan dreng …
Margir hafa mótmælt skotárás lögreglunnar á 18 ára svartan dreng í Missouri. AFP
Michael Brown var átján ára gamall.
Michael Brown var átján ára gamall. Ljósmynd/Fésbókarsíðan Justice For Michael Brown
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert