Friðsamleg mótmæli í Ferguson

Lögregla lét lítið fyrir sér fara í bænum Ferguson, í útjaðri bandarísku borgarinnar St Louis í gærkvöldi, og var kvöldið með rólegra móti eftir óeirðir síðustu daga. Lögreglan beitti ekki táragasi á mótmælendur og virðast mótmælin hafa farið friðsamlega fram. 

En þrátt fyrir friðsamleg mótmæli voru 47 mótmælendur handteknir í Ferguson í nótt. Að sögn Ron Johnson, varðstjóra í lögreglunni, köstuðu mótmælendur vatnsflöskum og flöskum með þvagi í að lögreglu. Að öðru leyti hafi mótmælin verið friðsamleg, einkum framan af. 

Ný viðhorfskönnun í Bandaríkjunum bendir til þess að mikill munur sé á afstöðu blökkumanna og hvítra manna til mótmælanna í Ferguson eftir að hvítur lögreglumaður skaut átján ára óvopnaðan blökkumann til bana. Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag.

Í könnuninni sögðust 80% blökkumanna og 37% hvítra telja að drápið vekti mikilvægar spurningar um kynþáttamismunun. Um 76% blökkumanna og 33% hvítra hafa enga eða litla trú á rannsókn yfirvalda á drápinu, ef marka má könnun Pew-rannsóknamiðstöðvarinnar.

Munurinn milli blökkumanna og hvítra er þannig 43 prósentustig en hann er enn meiri, eða 46 stig, milli demókrata og repúblikana. Aðeins 22% repúblikana telja drápið vekja spurningar um kynþáttamismunun, en 68% demókrata.

Margt er enn á huldu um tildrög drápsins á blökkumanninum, Michael Brown. Leiðtogar bandarískra blökkumanna hafa gagnrýnt framgöngu lögreglustjóra Ferguson í málinu og nokkrir þeirra hafa krafist þess að hann segi af sér.

Lögreglustjórinn, Thomas Jackson, hefur m.a. verið gagnrýndur fyrir að birta myndir úr eftirlitsmyndavél verslunar þar sem Brown virðist ráðast á afgreiðslumann og stela vindlakassa sem kostar tæpa 50 dollara, jafnvirði 5.800 króna. Myndirnar voru birtar á sama tíma og lögreglan skýrði frá nafni lögreglumannsins sem varð Brown að bana. Hermt er að lögreglumaðurinn hafi ekki vitað að Brown var grunaður um vindlastuld þegar hann skaut á hann. Svo virðist sem lögreglumaðurinn hafi séð Brown ganga á miðri götu og skipað honum að fara upp á gangstétt áður en til átaka kom milli þeirra. Sjónarvottum og lögreglu ber ekki saman um aðdraganda átakanna.

Kvartað yfir mismunun

Mikil óánægja hafði verið meðal íbúa Ferguson í garð lögreglunnar vegna meintrar kynþáttamismununar. Af 53 lögreglumönnum bæjarins eru aðeins þrír blökkumenn, þótt 67% íbúa bæjarins séu blökkumenn og 29% hvítir menn.

Lögreglustjórinn býr hins vegar í bæ þar sem 86% íbúanna eru hvít og hlutfall þeirra er enn hærra, eða 91%, í bæ lögreglumannsins sem varð blökkumanninum að bana.

M.a. hefur verið kvartað yfir því að lögreglan hefur verið mun líklegri til að stöðva eða handtaka blökkumenn en hvíta íbúa bæjarins. Af öllum ökumönnum sem voru stöðvaðir í umferðinni í fyrra voru 86% blökkumenn en aðeins 12% hvítir menn (sem eru 29% íbúanna). Af þeim ökumönnum sem voru handteknir voru 92% blökkumenn, að sögn Washington Post.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert