Vinstriflokkar að komast til valda

Stefan Löfven, leiðtogi Jafnaðarmanna.
Stefan Löfven, leiðtogi Jafnaðarmanna. AFP

Efnt verður til þingkosninga í Svíþjóð á morgun og benda skoðanakannanir þar í landi til þess að breytingar séu í vændum. Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við háskólann í Malmö í Svíþjóð, segir óánægju með einkavæðingu í velferðarkerfinu í brennidepli.

„Eins og þetta lítur út núna þá mun stjórnin ekki halda velli. Jafnaðarmannaflokkurinn mun líklegast fá um 30% fylgi, það verður því væntanlega vinstriblokkin sem verður sigurvegari kosninganna,“ segir hún en þá blokk skipa Jafnaðarmannaflokkurinn (Socialdemokratiska arbetarpartiet), Vinstrimenn (Vänsterpartiet), og Umhverfissinnar (Miljöpartiet de Gröna).

„Svo er líka spurning með Kvennalistann (Feministiskt initiativ), flokkur sem hefur verið að sækja á og er með um 4% fylgi samkvæmt nýjustu könnunum. Flokkurinn gæti mögulega verið með í vinstriblokkinni ef hann nær 5%,“ segir hún.

Almenn óánægja með einkavæðingu

Jafnaðarmannaflokkurinn hefur sótt í sig veðrið að undanförnu eftir nokkur slæm ár og segir Gunnhildur einkavæðingu hægri stjórnarinnar á heilbrigðis- og menntakerfinu spila þar stóra rullu.

„Óánægja með einkavæðingu í heilbrigðis- og menntakerfinu eru eflaust tvær meginorsakirnar fyrir því að Jafnaðarmannaflokkurinn hefur aukið fylgi sitt þar sem hægri flokkarnir hafa staðið fyrir henni,“ segir hún og bætir við að innflytjendamál, heilbrigðiskerfið og menntakerfið séu þau þrjú mál sem séu efst á baugi í kosningarbaráttunni.

„Velferðarkerfið í heild sinni hefur skroppið mikið saman eins og í mörgum öðrum Evrópulöndum. Fólk er auk þess mjög óánægt með hversu langt einkavæðingin hefur gengið. Fólk er farið að sjá neikvæðar afleiðingar þess að einkafyrirtæki, sem tekið hafa við hluta heilsugæslunnar, t.a.m. elliheimilum, séu að reyna að græða í stað þess að veita almennilega ummönnun. Gæðin hafa ekki aukist samhliða einkavæðingunni, aðgengi að allri heilsugæslu hefur orðið verri auk þess sem það er meira álag á heilbrigðisstarfsfólki. Ég myndi segja að það sé miklu betra aðgengi að læknisþjónustu á Íslandi en í Svíþjóð um þessar mundir þrátt fyrir að kunnáttan þar sé vissulega mikil. Einnig má nefna atvinnumálin. Aukin atvinnuþátttaka er í brennidepli þar sem talsvert atvinnuleysi er á meðal ungra Svía. Allir flokkarnir vilja auðvitað reyna að bæta úr því,“ segir hún. 

Þjóðernissinnar orðnir um 10%

„Þjóðernishyggjan er ekki að breiða úr sér í sama mæli í Svíþjóð og til dæmis í Finnlandi og Danmörku, langt því frá. Svíþjóðardemókratarnir, (Sverigedemokraterna) er þó orðinn þriðji stærsti flokkurinn í Svíþjóð. Hann hefur þó ekki jafn sterka stöðu og systurflokkar hans í Finnlandi og Danmörku,“ segir hún en Svíþjóðardemókrataflokkurinn, oft skammstafaður SD, er flokkur sem á ræt­ur að rekja til þjóðern­is­sinnaðra hreyf­inga sem voru sakaðar um nýnas­isma og kynþátta­for­dóma.

„Á síðustu fjórum árum hefur SD hreinsað mjög mikið til í flokknum og fært sig nær því sem kallað er félagshyggjuíhaldssemi, það hefur aukið fylgi þeirra. Flokkurinn hefur þannig færst nær hinum hefðbundnu hægriflokkum þrátt fyrir að hann sé þó ennþá talsvert lengra úti á hægri kantinum,“ segir hún en leggur þó áherslu á að flokkurinn sé aðeins með um eða undir 10% fylgi eins og staðan er núna og því varla í brennideplinum. 

Svíar fyrirmynd þegar kemur að móttöku hælisleitanda

Gunnhildur segir að vinstriflokkarnir geti dregið einkavæðinguna til baka að einhverju leyti en að aðallega verði reynt að hægja á þeirri framvindu sem hægriflokkarnir hrundu af stað.

„Ný stjórn mun að öllum líkindum forgangsraða öðruvísi og setja meiri pening í heilbrigðiskerfið. Það hefur einmitt brunnið á mörgum í Svíum hversu mikið hefur verið sparað á því sviði og einkavætt með slæmum afleiðingum eins og áður hefur komið fram“ segir hún. Svíþjóð veitti fleiri flótta­mönn­um hæli miðað við höfðatölu en nokk­urt annað Evr­ópu­land á síðasta ári og bú­ist er við að alls verði hæl­is­leit­end­urn­ir um það bil 80 þúsund í ár. Gunnhildur er á því að vinstristjórnin muni ekki draga úr þeirri stefnu ef hún kemst til valda en að gæta verði að hælisleitendum. 

„Það er svolítið mikil einföldun að segja að þetta séu félagsleg vandamál sem fylgja hælisleitendum. Þetta tengist fyrst og fremst slæmu aðgengi að vinnumarkaði og það er auðvitað eitthvað sem Svíar verða að gæta að því ef flóttamenn og aðrir innflytjendur fá atvinnu þá eru þeir orðnir fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Þetta er því fyrst og fremst spurning um atvinnupólitík,“ segir hún.

„Það væri óskandi að þjóðir Evrópu, ekki síst Ísland, tækju Svíþjóð sér til fyrirmyndar þar sem Svíar eru í fararbroddi þegar kemur að því að taka á móti flóttafólki,“ segir hún að lokum. 

Veggspjald jafnaðarmanna fyrir framan sænska þingið í Stokkhólmi. Helene Hellmark …
Veggspjald jafnaðarmanna fyrir framan sænska þingið í Stokkhólmi. Helene Hellmark Knutsson er lengst til vinstri, Karin Wanngaard er til hægri og leiðtogi flokksins, Stefan Löfven, fyrir miðju. Kosningarnar fara fram á sunndaginn kemur. AFP
Leiðtogar hægriflokkanna sem mynda núverandi ríkisstjórn, Goran Hagglund, Annie Loof, …
Leiðtogar hægriflokkanna sem mynda núverandi ríkisstjórn, Goran Hagglund, Annie Loof, Jan Bjorklund og forsætisráðherrann, Fredrik Reinfeldt. AFP
Jimmie Åkesson, leiðtogi SD.
Jimmie Åkesson, leiðtogi SD. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert