200 þúsund misst heimili sín í Filippseyjum

Björgunaraðgerðir í Filippseyjum. Flóð, miklar rigningar og vindar hafa gengið …
Björgunaraðgerðir í Filippseyjum. Flóð, miklar rigningar og vindar hafa gengið yfir landið síðustu daga. AFP

Hitabeltisstormurinn Fung-Wong hefur gert það að verkum að um 200 þúsund manns í Filippseyjum hafa misst heimili sín. Stormurinn hefur gengið yfir landið síðustu daga með flóðum, miklum rigningum og sterkum vindum. 

Þá hefur stormurinn drepið fimm manns, þar af tvo sem fengu rafstuð þegar þeir gengu í gegnum vatn frá flóðunum. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Höfuðborg Filippseyja, Manila, og bæir í norðurhluta landsins hafa farið verst út úr storminum. Á þessum svæðum hefur þurft að bjarga fjölda fólks af þökum húsa vegna flóðanna.

Stormurinn færist nú norðar og er búist við því að hann gangi yfir Taívan á morgun. Um 50 þúsund manna herlið hefur verið sett í viðbragðsstöðu fyrir mögulegar björgunaraðgerðir.

Fung-Wong hefur gengið yfir eyjaklasann með vindum allt að 95 kílómetrum á klukkustund. Rigning sem samsvarar þriggja vikna magni af eðlilegu rigningavatni féll á einni nóttu í hlutum landsins. Þá hafa þök fokið af húsum og tré hafa rifnað upp með rótum.

Fung-Wong er annar hitabeltisstormurinn sem ríður yfir Filippseyjar á tveimur vikum, en algengt er að slíkir stormir fari yfir landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert